Erlent

Draga um­deilda tekju­skatt­s­lækkun til baka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kwarteng og Truss á ársþingi Íhaldsflokksins.
Kwarteng og Truss á ársþingi Íhaldsflokksins. AP/Stefan Rousseau

Kwasi Kwarteng, fjármálaráðherra Bretlands, staðfesti við BBC í morgun að ríkisstjórnin hygðist falla frá áætlunum um að afnema 45 prósenta tekjuskattsþrepið.

Kwarteng og forsætisráðherrann Liz Truss sögðu síðast í gær að það stæði alls ekki til að falla frá afnáminu, þrátt fyrir að um væri að ræða einn umdeildasta liðinn í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram á dögunum og olli falli sterlingspundsins og gríðarlegum titringi á fjármála- og húsnæðismörkuðum.

Breskir miðlar segja ráðherrunum hafa orðið ljóst við upphaf ársþings Íhaldsflokksins að þingmenn myndu gera uppreisn ef þeir yrðu neyddir til þess að greiða atkvæði með afnámi skattþrepsins. 

Þá hafi menn verið farnir að tala um það að koma þyrfti Truss frá sem fyrst en skoðanakannanir sýna mikla sókn Verkamannaflokksins í kjölfar þess að fjárlagafrumvarpið var kynnt. 

Truss sagði síðast í gær, í viðtali við BBC, að hún hygðist alls ekki víkja frá stefnu sinni og því þykir málið allt hið vandræðalegasta.

Í viðtölum í morgun hefur Kwarteng ekki viljað viðurkenna að afnám skattþrepsins hafi verið mistök en sagði það hins vegar hafa beint athyglinni frá frumvarpinu í heild, sem hann stæði enn með. Hann sagðist ekki hafa í hyggju að segja af sér, jafnvel þótt seðlabankinn hefði neyðst til að verja gríðarlegum fjármunum til að verja lífeyrissjóðakerfið vegna klúðursins.

Þrátt fyrir algjöra U-beygju ríkisstjórnarinnar benda miðlar á að fleiri umdeildar skattalækkanir sé að finna í fjárlagafrumvarpinu og þá eigi enn eftir að upplýsa hvernig á að greiða fyrir þær. Getgátur hafa verið uppi um að mikill niðurskurður sé framundan í ríkisfjármálunum en í viðtölum í morgun vildi Kwarteng ekki kannast við það.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.