Fótbolti

Elín Metta er hætt

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Metta Jensen skoraði 16 mörk í 62 A-landsleikjum og varð til að mynda markahæst í íslenska liðinu í undankeppni síðasta Evrópumóts.
Elín Metta Jensen skoraði 16 mörk í 62 A-landsleikjum og varð til að mynda markahæst í íslenska liðinu í undankeppni síðasta Evrópumóts. VÍSIR/VILHELM

Knattspyrnukonan og markaskorarinn Elín Metta Jensen hefur lagt skóna á hilluna. Hún varð Íslandsmeistari með Val um helgina og valin í íslenska landsliðshópinn sem kemur saman í vikunni til undirbúnings fyrir úrslitaleikinn um sæti á HM.

Elín Metta er aðeins 27 ára gömul en tilkynnti það á Facebook-síðu sinni í gærkvöld að hún væri hætt. Sagði hún tíma til kominn að sinna öðrum hugðarefnum sem hún hefði ekki getað sinnt vegna fótboltans.

Orðrómur var uppi um að Elín Metta væri hætt síðasta vetur en hún sagði það rangt og varð svo bæði Íslands- og bikarmeistari með Val í sumar, og fór með íslenska landsliðinu á EM í Englandi. Hún var þó, í báðum tilvikum, í umtalsvert minna hlutverki en síðustu ár.

Elín Metta varð alls fjórum sinnum Íslandsmeistari með Val en hún lék allan ferilinn með liðinu og átti ríkan þátt í upprisu þess á síðustu árum. Hún varð einnig þrisvar bikarmeistari, valin leikmaður ársins 2019 og hlaut markadrottningartitilinn 2012.

Í færslu sinni á Facebook skrifaði hún:

Kæru vinir,

Ég hef ákveðið að leggja knattspyrnuskóna á hilluna.

Mér er efst í huga þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt sitt á vogarskálarnar til að hjálpa mér að verða bæði betri knattspyrnukona og einstaklingur. Fótboltinn hefur gefið mér svo margt og svo margar gleðistundir. Nú finn ég hins vegar að það er kominn tími til að sinna öðrum hugðarefnum sem ég hef þurft að setja til hliðar á meðan ég hef sinnt fótboltanum.

Takk fyrir allt. Áfram Valur og áfram Ísland.

Sjöunda markahæst í deildinni og tíunda markahæst í landsliðinu

Elín Metta skoraði sjö mörk í Bestu deildinni í sumar og hefur því alls skorað 132 mörk í 183 leikjum í efstu deild á Íslandi. Þar er hún í sjöunda sæti yfir þær markahæstu frá upphafi.

Hún skoraði einnig 16 mörk í 62 A-landsleikjum og er tíunda markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

Elín Metta var á dögunum valin í íslenska landsliðshópinn sem eftir átta daga mætir sigurliðinu úr leik Belgíu og Portúgals í úrslitaleik um sæti á HM í Eyjaálfu. Ljóst er að kalla þarf inn nýjan leikmann í hennar stað.

Auk Elínar Mettu hafa þær Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Mist Edvardsdóttir, liðsfélagar hennar úr Val, nú einnig lagt skóna á hilluna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.