Íslenski boltinn

Arnar Bergmann: „Fannst þessi sigur verðskuldaður"

Hjörvar Ólafsson skrifar
Arnar Bergmann Gunnlaugsson kyssir bikarinn. 
Arnar Bergmann Gunnlaugsson kyssir bikarinn.  Vísir/Hulda Margrét

Arnar Bergmann Gunnlaugsson stýrði í dag Víkingi Reykjavík til sigurs í bikarkeppni karla í fótbolta í þriðja skiptið í röð sem keppnin er haldin. Arnar Bergmann telur sigur liðsins gegn FH í úrslitaleik keppninnar þetta árið hafa verið sanngjarnan. 

„Þetta var mjög erfiður leikur og við náðum ekki að hrista FH af okkur. Þrátt fyrir að þeir hafi jafnað metin tvisvar sinnum þá fannst mér við heilt yfir vera sterkari aðilinn í leiknum og sigurinn þar af leiðandi sanngjarn að mínu mati," sagði Arnar Bergmann sigurreifur að leik loknum. 

„Það var auðvitað högg í magann að fá á okkur jöfnunarmarkið á síðustu mínútu leiksins rétt eftir að við höfðum komist yfir. Við náðum að hreinsa hugann eftir lok venjulegs leiktíma og tryggja sigurinn sem er afar sætt," sagði þjálfarinn einnig.

„Við höfum nú náð því sem fá lið hafa gert að vera bikarmeistarar þrisvar sinnum í röð og það er mikið afrek. Það er eitthvað sem við getum verið mjög stoltir af og það sýnir hversu langt á veg við erum komnir sem lið," sagði hann. 

„Það er líka kærkomið að vera búinn að tryggja Evrópusæti og þurfa ekki að berjast við KA um það að ná því. Það er mjög hæpið að við náum að hirða toppsætið af Breiðabliki en við munum halda áfram að ná í eins mörg stig og við getum í úrslitakeppninni og sjá hverju það skilar okkur," sagði Arnar Bergmann um lokasprett keppnistímabilsins.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×