Enski boltinn

Hæstánægður með kollspyrnu Dagnýjar en sagði markið hafa komið of snemma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir stangar boltann í net Chelsea.
Dagný Brynjarsdóttir stangar boltann í net Chelsea. getty/Steve Bardens

Þjálfari West Ham United var sérstaklega ánægður með markið sem Dagný Brynjarsdóttir skoraði gegn Chelsea í ensku ofurdeildinni í gær.

Dagný kom West Ham yfir strax á 3. mínútu. Hún skallaði þá hornspyrnu Skotans Kirstys Smith í netið.

Markið virtist kveikja í Englandsmeisturum Chelsea sem sneru dæminu sér í vil og unnu á endanum 3-1 sigur.

Paul Konchesky, þjálfari West Ham, hrósaði Dagnýju fyrir markið eftir leik en sagði að það hefði ef til vill ekki komið á besta tímanum.

„Ég held að markið hafi komið aðeins of snemma fyrir okkur. En þvílíkur skalli,“ sagði Koncheskey sem tók við West Ham fyrir tímabilið.

„Við héldum að við gætum farið með forystuna inn í hálfleikinn en því miður gerðist það ekki. Miðað við hvernig við spiluðum héldum við að við gætum fengið eitthvað út úr leiknum en það var súrt að fá á sig mörk eftir föst leikatriði.“

Eftir að hafa unnið Everton, 1-0, í 1. umferð deildarinnar hefur West Ham tapað síðustu tveimur leikjum sínum.

Dagný var gerð að fyrirliða West Ham fyrir tímabilið. Hún hefur leikið með liðinu frá því í ársbyrjun 2021. Rangæingurinn hefur alls leikið fjörutíu leiki fyrir Hamrana og skorað sjö mörk. Þrjú þeirra hafa komið á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×