Erlent

Svíar fundu fjórða lekann og Rússar benda á Bandaríkjamenn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Svíar hafa fundið fjórða lekann á Nord Stream gaslögnunum.
Svíar hafa fundið fjórða lekann á Nord Stream gaslögnunum. epa/Varnarmálaráðuneyti Danmerkur

Sænska landhelgisgæslan hefur fundið fjórða gaslekann á Nord Stream gasleiðslunum, samkvæmt Svenska Dagbladet. Blaðið hefur eftir talsmanni landhelgisgæslunnar að tveir af lekunum fjórum séu í sænskri lögsögu en hinir tveir eru í danskri lögsögu.

Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði í samtali við Sky News í morgun að um væri að ræða viljaverk og fordæmalausa árás. Hann sagði ríki Evrópu þurfa að vera meðvituð um þá ógn sem steðjaði að mikilvægum innviðum.

Kofod sagði skemmdarverkin enn fremur áminningu um nauðsyn þess að verða óháð orku frá Rússlandi.

Alþjóðleg nefnd um refsiaðgerðir hefur komist að þeirri niðurstöðu að lýsa ætti Rússland ríki sem styður við hryðjuverk og að landið falli nú undir skilgreininguna á „hryðjuverkaríki“ í Bandaríkjunum og Kanada. 

Yfirvöld í Rússlandi hafa freistað þess að kenna Bandaríkjamönnum um gaslekann og samkvæmt RIA Novosti sendi utanríkisráðuneytið frá sér yfirlýsingu í gær þar sem sagði að lekarnir hefðu komið upp á svæði sem væri undir stjórn bandarískra öryggisyfirvalda.

Rússar hafa meðal annars vísað til ummæla Joe Biden Bandaríkjaforseta, sem sagði í aðdraganda innrásarinnar að ef Rússar færu inn í Úkraínu yrði ekkert af Nord Stream 2. Þess ber þó að geta að Þjóðverjar lokuðu á það samstarf strax í kjölfar innrásarinnar.

Stjórnvöld vestanhafs tilkynntu í gær að þau hygðust senda Úkraínumönnum átján Himars-eldflaugakerfi til viðbótar við þau sextán sem þeir hefðu þegar fengið. Úkraínuher hefur notað kerfin í gagnsókn sinni með góðum árangri.

Í vopnapakkanum nýja, sem er metinn á 1,1 milljarð Bandaríkjadala, verður einnig að finna 150 brynvarin farartæki, 150 önnur farartæki og kerfi sem munu nýtast Úkraínumönnum til að verjast írönskum drónum sem Rússar hafa verið að nota á vígvellinum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×