Enski boltinn

Mark Dag­nýjar dugði ekki gegn Eng­lands­meisturunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir og Kadeisha Buchanan í leik kvöldsins.
Dagný Brynjarsdóttir og Kadeisha Buchanan í leik kvöldsins. Steve Bardens/Getty Images

Dagný Brynjarsdóttir bar að venju fyrirliðabandið þegar West Ham United heimsótti Englandsmeistara Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Dagný kom West Ham óvænt yfir en heimakonur svöruðu með þremur mörkum og unnu á endanum 3-1 sigur.

Dagný skoraði eftir aðeins þrjár mínútur en hún skallaði fyrirgjöf Kirsty Smith í netið. Fyrsta mark Dagnýjar á tímabilinu og sannkölluð draumabyrjun fyrir gestina. Virtist sem leikmenn Chelsea væru slegnir út af laginu og tók það Englandsmeistarana smá tíma að finna taktinn.

Það tókst þó á endanum og fóru þær þá að ógna marki West Ham. Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik jafnaði Fran Kirby metin þegar hún kom boltanum í netið eftir sendingu Guro Reiten. Staðan 1-1 og þannig var hún þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Í síðari hálfleik var Chelsea mun sterkari aðilinn. Sam Kerr opnaði markareikning sinn og kom Chelsea 2-1 yfir á 58. mínútu. Aðeins fjórum mínútum síðar skilaði Millie Bright boltanum í netið eftir fyrirgjöf Kateřinu Svitková en hún spilaði með West Ham á síðustu leiktíð.

Staðan orðin 3-1 og sigurinn í augsýn. Lauren James fékk svo fullkomið tækifæri til að gera endanlega út um leikinn á 77. mínútu en hún brenndi þá af vítaspyrnu. Mackenzie Arnold, markvörður West Ham, varði spyrnuna og sá til þess að staðan var enn 3-1. Reyndust það á endanum lokatölur leiksins.

Chelsea hefur þar með unnið tvo leiki í röð eftir að tapa fyrir Liverpool í fyrstu umferð. West Ham hefur hins vegar tapað tveimur í röð eftir að vinna Everton í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×