Erlent

Leita heimsþekkts göngugarps eftir slys í Nepal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hilaree Nelson á göngu nærri þorpinu Samdo á leið sinni að Manaslu.
Hilaree Nelson á göngu nærri þorpinu Samdo á leið sinni að Manaslu. Facebook/Hilaree Nelson

Fjallgöngukonunnar Hilaree Nelson er saknað eftir að hafa toppað Manaslu í Nepal, áttunda hæsta fjall í heimi, á mánudag. Nelson var á leiðinni niður á skíðum þegar slysið varð. Talið er að hún hafi fallið í sprungu.

Nelson, sem er afar reynslumikill göngukappi, sagði í færslu á Instagram á dögunum að líðan hennar væri öðruvísi en í fyrri göngum. Hún væri ekki jafn örugg og venjulega.

Slysið varð sama dag og nepalskur göngumaður fórst og fjölmargir slösuðust í snjóflóði á svipuðum slóðum. Skipuleggjandi ferðarinnar tjáir AFP að enn sé óljóst hvers lags slysið varð.

Manaslu er 8163 metra hátt fjall. Snjóflóð féll í fjallinu á kaflanum á milli grunnbúða þrjú og fjögur. Nepalskur göngugarpur fórst og tólf særðust. Um er að ræða fyrsta staðfesta dauðsfallið í haustvertíðinni í fjallgörðum Nepal í ár.

Mikil rigning og snjókoma hafa gert göngufólki erfitt fyrir í fjöllunum í Nepal undanfarna daga. Veðrið gerir leitarfólki sömuleiðis erfitt fyrir.

„Mér hefur ekki liðið jafn öruggri á Manaslu eins og mér hefur liðið í fyrri ferðum mínum í þunnt andrúmsloftið í Himalaya-fjöllunum,“ sagði Nelson í færslu á Instagram á fimmtudag.

Nelson er 49 ára og er eitt helsta andlit North Face fatalínunnar. Á heimasíðu fyrirtækisins er henni líst sem afkastamesta skíðakappa sinnar kynslóðar. Árið 2012 varð hún fyrsta konan til að toppa bæði Everest og Lhotse á innan við sólarhring. Sex árum síðar var hún fyrst til að skíða niður af Lhotse. Fyrir það var hún verðlaunuð af National Geographic.

Átta af fjórtán hæstu tindum í heimi eru í Nepal. Erlendir göngukappar fjölmenna á hverju ári til landsins sem hefur töluverðar tekjur af starfseminni. Göngur lágu því sem næst niðri í heimsfaraldrinum en opnað var á ný fyrir göngufólk í fyrra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×