Umfjöllun: Selfoss - Breiðablik 2-0 | Evrópudraumar Blika í hættu eftir tap á Selfossi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Selfyssingar unnu sterkan sigur gegn Breiðablik í dag.
Selfyssingar unnu sterkan sigur gegn Breiðablik í dag. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik mátti þola 2-0 tap er liðið heimsótti Selfoss í næstseinustu umferð Bestu-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Tapið þýðir að liðið þarf að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum til að tryggja sér Evrópusæti í lokaumferðinni.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi leiks í rokinu á Selfossi og bæði lið tóku sér nokkrar mínútur í að koma sér almennilega í gang.

Gestirnir í Breiðablik virtust þó líklegri til að brjóta ísinn og liðið ógnaði heimakonum með hættulegum sóknum upp kantana. Liðinu tókst hins vegar ekki að skapa sér opin marktækifæri úr þessum sóknum og varnarmenn Selfyssinga réðu vel við fyrirgjafir gestanna.

Það voru svo heimakonur sem urðu fyrri til að brjóta ísinn þegar Bergrós Ásgeirsdóttir átti fallega fyrirgjöf utan af hægri kanti eftir um hálftíma leik og þar mætti Miranda Nild á meiri ferðinni og stangaði boltann í netið.

Blikar voru enn sterkari aðilinn það sem eftir lifði hálfleiksins, en ekki tókst þeim að jafna metin áður en hálfleiksflautið gall og staðan því 1-0, heimakonum í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur fór nokkuð rólega af stað og svo virtist sem liðin þyrftu að fóta sig á ný eftir að hafa skipt um vallarhelming og vindurinn því að koma úr annarri átt en liðin höfðu vanist í fyrri hálfleik.

Blikastúlkur juku þó pressuna jafnt og þétt eftir því sem leið á síðari hálfleikinn, en vörn Selfyssinga stóð vel líkt og í fyrri hálfleik. Blikarnir áttu í erfiðleikum með að skapa sér opin marktækifæri og Selfyssingar voru þolinmóðir í sínum varnaraðgerðum.

Sú þolinmæði skilaði sér loksins þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka þegar Miranda Nild átti frábæra sendingu innfyrir vörn gestanna þar sem Brenna Lovera tók við honum og var sloppin ein í gegn. Eva Persson varði hins vegar virkilega vel frá Brennu, en boltinn hrökk út í teig þar sem Bergrós Ásgeirsdóttir stóð ein og óvölduð og kláraði færið vel.

Seinustu mínútur leiksins buðu svo upp á meira af því sama. Blikar voru mun meira með boltann og reyndu hvað þær gátu til að ógna marki Selfyssinga, en vörn heimakvenna stóð vel og lokatölur urðu því 2-0, Selfyssingum í vil.

Af hverju vann Selfoss?

Ætli það sé ekki fyrst og fremst vörn og færanýting sem skilaði Selfyssingum sigrinum. Liðið stóð stóran hluta leiksins í vörn í dag, en þrátt fyrir það virtust Blikastúlkur aldrei mjög líklegar til að skora. Gestirnir fengu vissulega eitt eða tvö góð færi, en það gerðu Selfyssingar líka og munurinn er sá að heimakonur skiluðu boltanum í netið.

Hverjar stóðu upp úr?

Bergrós Ásgeirsdóttir átti flottan leik fyrir Selfyssinga, en hún lagði upp fyrra markið og skoraði það seinna. Varnarlína Selfyssinga stóð einnig vel og þá má kannski sérstaklega nefna Barbáru Sól Gísladóttur sem virkaði mjög yfirveguð í öllum sínum aðgerðum í bakverðinum.

Í liði Blika var Agla María Albertsdóttir eins og svo oft áður ógnandi þegar hún fékk boltann, en náði ekki að skapa nægilega mikið fyrir liðsfélaga sína.

Hvað gekk illa?

Ekki í fyrsta sinn sem það kemur fram hér í dag, en Breiðablik gekk afar illa að brjóta vörn Selfyssinga á bak aftur. Liðið var mikið með boltann og komst oft í góðar stöður með sprettum upp kantana, en liðinu skorti gæði í lokasendingunum til að búa sér til mark eða mörk í dag.

Hvað gerist næst?

Lokaumferðin í Bestu-deild kvenna er framundan og verða allir leikirnir spilaðir á sama tíma, klukkan 14:00 næstkomandi sunnudag. Breiðablik fær Þrótt í heimsókn í sínum lokaleik, en Selfyssingar heimsækja nýkrýnda Íslandsmeistara Vals.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira