Erlent

„Held að íbúar í Íran séu komnir með meira en nóg af ríkisstjórninni“

Samúel Karl Ólason skrifar
BeFunky-collage
Vísir/AP/Vilhelm

Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í Íran undanfarna daga eftir að ung kúrdísk kona dó í haldi lögreglu. Hún hafði verið handtekin fyrir að vera ekki klædd samkvæmt ströngum reglum klerkastjórnar Írans og dó í síðustu viku.

Hinn 22 ára gamla Masha Jina Amini þótti ekki vera með höfuðklút sinn nógu þéttan á höfðinu. Lögreglan hefur haldið því fram að hún hafi fengið hjartaáfall en fjölskylda hennar segir hana hafa verið myrta. Þau segja hana ekki hafa verið með neina hjartakvilla og að þeim hafi verið meinaður aðgangur að líki hennar.

Mótmælin í vikunni hafa leitt til þess að yfirvöld í Íran hafa lokað á aðgang að internetinu víða í landinu en til átaka hefur komið milli mótmælenda og öryggissveita. AP fréttaveitan hefur eftir Amnesty International að minnst átta séu látnir og hundruð hafi særst.

Þá hafa fregnir borist af því að öryggissveitir hafi skotið á mótmælendur.

Þetta er fimmti dagurinn sem mótmælt er í Íran og eru mótmælin sögð hafa náð til minnst fimmtíu borga og bæja í Íran og þar á meðal Tehran, höfuðborgar landsins.

Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, er stödd á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Írak og segir dauða Amini byrjaðan að hafa áhrif þar og komið hafi til mótmæla.

Hún segir mikla reiði meðal mótmælenda.

„Ég held að íbúar í Íran séu komnir með meira en nóg af ríkisstjórninni þar, sem beitir fasískum aðferðum gegn borgurum landsins. Óafsakanlegt ofbeldi gegn Jina Amini var dropinn sem fyllti mælinn,“ segir Lenya.

Lenya átti flug til Íslands í kvöld en hætti við vegna fjölmargra skilaboða sem hún hefur fengið frá fólki í Íran. Hún ákvað að fresta brottför um nokkra daga.

„Það segir mjög mikið að borgarar í Íran hafi leitað til varaþingmanns í stjórnarandstöðu til þess að veita þeim stuðning og rödd. Ég er hér sem Íslendingur og þau líta á mig sem Íslending, ég hef ekki tekið neina afstöðu sem íslenska ríkisstjórnin hefur ekki tekið nú þegar og ég vil trúa því að hver annar varaþingmaður eða þingmaður hefði gert það nákvæmlega sama í minni stöðu,“ segir Lenya.

Draumur um ríki hvarf með nokkrum pennastrikum

Við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, þegar Ottóman-veldið féll gerðu þáverandi heimsveldi upprunalega ráð fyrir ríki Kúrda, sem iðulega er nefnt Kúrdistan, í Sevres-samkomulaginu (finna má kort í hlekknum) árið 1920. Því var þó breytt þremur árum seinna, með Lausanne-samkomulaginu, og varð stærstur hluti landsins sem átti að verða Kúrdistan hluti að Tyrklandi.

Kúrdar eru nú á stórum svæðum í Írak, Íran, Tyrklandi og í Sýrlandi. Á síðustu hundrað árum hafa allar tilraunir Kúrda til að stofna eigið ríki verið stöðvaðar með miklu afli.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×