Erlent

Lögreglubíll varð fyrir lest með handtekna konu í aftursætinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar færðu konuna í bíl þeirra, sem þeir höfðu lagt á lestarteinum.
Lögregluþjónar færðu konuna í bíl þeirra, sem þeir höfðu lagt á lestarteinum. Getty

Kona sem lögregluþjónar í Colorado í Bandaríkjunum handtóku á föstudaginn slasaðist þegar lögreglubíll sem hún var í varð fyrir lest. Hún var ein í bílnum en lögregluþjónarnir höfðu lagt honum á lestarteinum, án þess að taka eftir því.

Konan, sem er tvítug, var grunuð um að vera með byssu í bíl sínum og um að hafa ógnað öðrum í bræðiskasti í umferðinni. Hún var sett í aftursæti lögreglubíls á meðan lögregluþjónarnir leituðu í bíl hennar en lögreglubílnum hafði verið lagt á lestarteina.

Samkvæmt frétt NBC News er konan alvarlega slösuð en ekki talin í lífshættu. Engan annan sakaði.

Colorado Bureau of Investigation, æðsta löggæsluembætti ríkisins, hefur atvikið til rannsóknar, auk annarra embætta en bílinn varð fyrir lestinni á mörkum tveggja sveitarfélaga.

Konan var grunuð um að ógna fólki í Fort Lupton en var stöðvuð af lögregluþjónum frá Platteville. Konan keyrði yfir lestarteinana en lögregluþjónarnir lögðu bíl þeirra á teinunum. Eftir það komu lögregluþjónar frá Fort Lupton einnig á vettvang.

Sérfræðingur sem NBC ræddi við segir mögulegt að lögregluþjónarnir sem lögðu bílnum á teinunum gætu verið ákærðir vegna atviksins. Þeir hafa verið settir í leyfi á meðan rannsókn fer fram.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt héraðsmiðilsins 9News, þar sem meðal annars eru spilaðar upptökur af talstöðvarsamtölum lögregluþjóna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×