Fótbolti

For­maður KR svarar fyrir sig: Endur­speglast í slæmu gengi liðsins

Atli Arason skrifar
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR.
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR. Stöð 2 Sport

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, hefur svarað fyrir þá gagnrýni sem stjórn KR hefur fengið á undanförnum sólarhring eftir tap liðsins gegn Selfossi á heimavelli. Páll kennir skort á sjálfboðaliðum um það sem misfórst þegar leikmaður KR varð fyrir meiðslum.

Eftir klukkutíma leik meiddist KR-ingurinn Hannah Tillet og varð að fara meidd af velli en engar sjúkrabörur né starfsmenn voru til staðar til að aðstoða Tillet. Páll segir ganga erfiðlega að manna leiki með sjálfboðaliðum þegar árangurinn innan vallar er eins slæmur og hann hefur verið en KR féll úr efstu deild með tapinu gegn Selfoss í gær.

„Það er bara eins með kvenna- og karlalið KR sem og hjá öllum öðrum liðum á Íslandi, þegar illa gengur þá er oft erfiðara að fá fólk á völlinn og erfiðara að fá fólk til að vinna sjálfboðavinnuna. Það endurspeglast í slæmu gengi liðsins að aðrir hafa hrokkið frá og eru að gera annað við tímann sinn en að vera í sjálfboðavinnu,“ sagði Páll í viðtali við Stöð 2.

Þrátt fyrir augljósan skort á sjálfboðaliðum segir Páll að fjöldinn allur af sjálfboðaliðum hafi verið á vellinum í gær. Honum finnst ósmekklegt að gagnrýna sjálfboðaliða fyrir störf sín líkt og hann telur hafa verið gert.

„Að lang stærstu leyti með þetta augnablik sem skeði í gær þá harma ég stöðuna eins og hún gerðist en það vantaði aðila til að vinna ákveðin sjálfboðastörf þó svo að fjöldin allur af sjálfboðaliðum hafi unnið á þessum leik eins og öðrum leikjum í sumar. Gagnrýnin er svolítið harkaleg þar sem verið að ráðast að fólki sem er að gefa vinnuna sína.“

Páll gefur lítið fyrir þá gagnrýni að KR-ingar sýni meiri áhuga á karlaliðinu en þau sýna kvennaliðinu.

„Ég finn það allavega ekki hjá sjálfum mér. Ég hef mikinn áhuga á kvennaliði KR og fylgist með liðinu eins mikið og ég get. Ég reyni að gefa eins mikið af mér fyrir liðið og hægt er en það verður bara hver og einn að dæma um það.“

Enn fremur bendir Páll á að mikill skortur hafi verið á sjálfboðaliðum á leiki karlaliðsins í sumar en ekkert hefur verið rætt eða ritað um það í fjölmiðlum. Viðtalið við Pál í heild má sjá í spilaranum hér að neðan.

„Það hefur ekkert verið fjallað um það. Við höfum verið í mikilli baráttu við sjálfboðaliða að manna hin og þessi störf. Ég er búinn að sinna hverju einasta starfi sem þarf að vinna í sumar fyrir utan að vera vallarþulur. Menn tala bara um þetta í kvennaboltanum. Ég held að öll lið á Íslandi skilji þá stöðu sem við vorum í og öll lið á Íslandi þurfa að glíma við þetta á einhverjum tímapunkti. Það hefur bara ekkert verið fjallað um önnur lið, öll spjót snúa að KR,“ sagði Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR.

Klippa: Formaður KR svarar fyrir sig: Endurspeglast í slæmu gengi liðsins

Tengdar fréttir

Lá sárþjáð en fékk engar börur: „Takið mig út af“

Hannah Tillett lá sárþjáð á grasinu á Meistaravöllum, heimavelli KR-inga, í tæpar fjórar mínútur í gær áður en liðsfélagar hennar héldu á henni af vellinum. Vonir standa til þess að hún hafi ekki slitið krossband í hné.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×