Erlent

Skemmdirnar á Púertó Ríkó sagðar hörmulegar

Samúel Karl Ólason skrifar
AP22262667191454
AP/Alejandro Granadillo

Fellibylurinn Fíóna olli hörmulegum skemmdum á eyjunni Púertó Ríkó í dag. Ríkisstjóri eyjunnar segir eyðilegginguna hvað versta í þéttbýli og að minnst einn sé látinn. Enn sé þó ekki búið að ná að fullu utan um eyðilegginguna.

Nærri því öll eyjan er án rafmagns en Fíónu fylgdi mikil rigning sem olli flóðum og aurskriðum. AP fréttaveitan segir Fíónu hafa rifið malbik af götum og þök af húsum. Flóð hafi rifið brýr en enn er mikil rigning á Púertó Ríkó.

Veðurfræðingar sögðu fyrr í kvöld að rigningin hefði mælst allt að 56 sentímetrar og von væri á allt að tuttugu sentímetrum til viðbótar.

Hér að neðan má sjá myndefni frá AP fréttaveitunni sem tekið var á Púertó Ríkó í dag.

Púertó Ríkó er bandarískt yfirráðasvæði og lýsti Joe Biden Bandaríkjaforseti yfir neyðarástandi á eyjunni. Sá sem vitað er að dó vegna Fíónu var sjötugur maður sem brann illa þegar hann var að hella eldsneyti á ljósavél sína.

Sjá einnig: Fíóna sló út öllu rafmagni á Púertó Ríkó

Washington Post segir að búið sé að koma rafmagni aftur til um hundrað þúsund heimila og fyrirtækja á norðurhluta Púertó Ríkó. Enn séu þó 750 þúsund heimili og fyrirtæki án rafmagns. Ríkisstjóri Púertó Ríkó segir að það muni taka einhverja daga að laga dreifikerfi eyjunnar að fullu og koma rafmagni á hjá öllum.

Fíóna náði einnig landi í Dóminíska lýðveldinu í dag en veðurfræðingar eiga von á allt að 38 sentímetra rigningu í Dóminíska lýðveldinu. Talið er að Fíóna muni stækka og safna krafti á leið út á Atlantshafið á næstu dögum og gæti fellibylurinn skollið á Bermúda-eyjum á fimmtudag eða föstudag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×