Erlent

Fíóna sló út öllu rafmagni á Púertó Ríkó

Kjartan Kjartansson skrifar
Borgarbúar í San Juan á Púertó Ríkó húka inni í myrkrinu eftir að rafmagni sló út í fellibylnum Fíónu.
Borgarbúar í San Juan á Púertó Ríkó húka inni í myrkrinu eftir að rafmagni sló út í fellibylnum Fíónu. Vísir/EPA

Allir íbúar Karíbahafseyjarinnar Púertó Ríkó voru án rafmagns þegar fellibylurinn Fíóna gekk yfir hana í gær. Mikil flóð og aurskriður fylgdu bylnum sem var fyrsta stigs fellibylur.

Vindhraðinn náði allt að 39 metrum á sekúndu þegar Fíóna gekk á land og sló öllu rafmagni út á eyjunni þar sem um 3,3 milljónir manna búa. Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC hefur rafmagni sums staðar verið komið á aftur, þar á meðal á aðalsjúkrahúsinu í höfuðborginni San Juan. Það gæti þó tekið einhverja daga að koma rafmagni á alls staðar.

Púertó Ríkó er bandarískt yfirráðasvæði og lýsti Joe Biden Bandaríkjaforseti yfir neyðarástandi á eyjunni. Hundruð manna þurftu að flýja heimili sín eða var bjargað undan flóðvatni. Höfnum var lokað og öllum flugferðum frá aðalflugvelli landsins var aflýst vegna bylsins. Skólar og opinberar stofnanir verða lokaðar í dag.

Pedro Pierluisi, ríkisstjóri Púertó Ríkó, sagði tjónið af völdum Fíónu skelfilegt. Áfram er spáð úrhellisrigningu á eyjunni í dag.

Fimm ár eru frá því að fellibylurinn María lék eyjaskeggja á Púertó Ríkó grátt. Þremur vikum eftir að veðrinu slotaði höfðu aðeins tíu prósent íbúa endurheimt rafmagn. Flutningskerfi eyjarinnar er ennþá sagt veikburða og tímabundið rafmagnsleysi er þar daglegt brauð. Þá hafast þúsundir manna enn við í hálfgerðum bráðabirgðaskýlum með aðeins bláan segldúk sem þak til að verja sig fyrir veðri og vindum, að sögn AP-fréttastofunnar.

Fíóna stefnir nú á Dóminíska lýðveldið, Haítí og Turks- og Caicoseyjar í dag og gæti valdið usla á syðsta odda Bahamaeyja á morgun. Einn fórst þegar flóð skall á húsi hans á Gvadelúpeyjum áður en fellibylurinn náði að Púertó Ríkó.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×