Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin sem héldu titil­vonum Blika á lífi, felldu KR og héldu Þór/KA lík­lega uppi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Selfoss skoraði fimm í Vesturbænum og felldi KR.
Selfoss skoraði fimm í Vesturbænum og felldi KR. Vísir/Hulda Margrét

Þrír leikir í Bestu deild kvenna í fótbolta fóru fram í gær, sunnudag. Alls voru 15 mörk skoruð og þau má öll sjá hér að neðan.

Í Vesturbænum var Selfoss í heimsókn. Fór það svo að gestirnir unnu leikinn 5-3 sem þýddi að KR mun spila í Lengjudeildinni árið 2023. Eftir leik hefur hávær umræða myndast í kringum umgjörð KR-liðsins.

Hvað leikinn sjálfan varðar þá kom Íris Una Þórðardóttir gestunum yfir en Guðmunda Brynja Óladóttir jafnaði skömmu síðar. Miranda Nild sá þó til þess að Selfoss var 2-1 yfir í hálfleik. Í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Marcella Barberic metin áður en Íris Una gerði annað mark sitt.

Miranda gerði svo slíkt hið sama og staðan 3-2 gestunum í vil áður en Katla María, systir Írisar Unu, bætti við fimmta marki gestanna. Rasamee Phonsongkham minnkaði muninn fyrir KR í uppbótartíma með marki úr vítaspyrnu, lokatölur 3-5 í miklum markaleik.

Klippa: Besta deild kvenna: KR 3-5 Selfoss

Í Kópavogi var Afturelding í heimsókn en gestirnir þurftu á þremur stigum að halda til að reyna halda í vonina um að halda sæti sínu í deildinni. Breiðablik þurfti hins vegar sigur til að halda í þá veiku von að liðið gæti náð toppliði Vals.

Markalaust var í hálfleik en Írena Héðinsdóttir Gonzales kom Blikum yfir snemma í síðari hálfleik. Agla María Albertsdóttir bætti svo við tveimur mörkum og Breiðablik vann sannfærandi 3-1 sigur.

Klippa: Besta deild kvenna: Breiðablik 3-0 Afturelding

Í Keflavík var Þór/KA í heimsókn en bæði lið voru fyrir leik rétt fyrir ofan fallsæti. Þrjú mörk á átta mínútna kafla undir lok fyrri hálfleiks og í upphafi þess síðari gerðu út um leikinn. Margrét Árnadóttir kom Þór/KA yfir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir tvöfaldaði forystuna og Hulda Ósk Jónsdóttir tryggði svo sigurinn. 

Það skipti engu að Caroline Van Slambrouck hafi minnkað muninn á 66. mínútu. Lokatölur 1-3 og Þór/KA svo gott sem búið að tryggja sæti sitt í deildinni.

Klippa: Besta deild kvenna: Keflavík 1-3 Þór/KA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×