Fótbolti

Vand­ræði Juventus halda á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Christian Gytkjaer fagnar sigurmarki sínu gegn Juventus.
Christian Gytkjaer fagnar sigurmarki sínu gegn Juventus. Giuseppe Cottini/Getty Images

Ítalska stórliðið Juventus mátti þola 1-0 tap gegn nýliðum Monza í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta, í dag. Þá vann Lazio 4-0 sigur og fór upp fyrir fjendur sína í Roma í töflunni.

Juventus hefur ekki farið vel af stað þó svo að liðið hafði ekki tapað deildarleik fyrr en í dag. Liðið hafði hins vegar aðeins unnið tvo leiki og gert fjögur jafntefli. Eftir tap gegn Benfica í Meistaradeild Evrópu í miðri viku var talið að lærisveinar Max Allegri myndu mæta bandbrjálaði til leiks.

Ángel Di María mætti allavega brjálaður til leiks en hann lét reka sig af velli á 40. mínútu fyrir að gefa leikmanni Monza olnbogaskot. Manni fleiri tóku heimamenn í öll völd á vellinum og kom sigurmarkið á 74. mínútu. Christian Gytkjaer með markið eftir fyrirgjöf Patrick Ciurria. Lokatölur 1-0 og Juventus í 8. sæti með 10 stig eftir sjö leiki.

Þá vann Lazio 4-0 útisigur á Cremonese en liðið steinlá gegn Midtjylland frá Danmörku í miðri viku. Ciro Immobile gerði fyrstu tvö mörkin, Sergej Milinković-Savić bætti við þriðja markinu og hinn spænski Pedro því fjórða.

Lazio er eftir sigur dagsins í 5. sæti með 14 stig að loknum sjö leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×