Íslenski boltinn

„Höfum haldið haus og strákarnir eru að uppskera eftir því“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Sigurðar Heiðars Höskuldssonar eru ekki lengur í fallsæti.
Strákarnir hans Sigurðar Heiðars Höskuldssonar eru ekki lengur í fallsæti. vísir/diego

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var hreykinn af sínu liði eftir sigurinn á ÍA, 1-2, á Akranesi í dag. Leiknismenn lentu undir en komu til baka og unnu leikinn, þökk sé tveimur sjálfsmörkum Skagamanna.

„Mér líður bara mjög vel, þetta er skemmtilegt og ég er mjög ánægður. Við þurftum að hafa mikið fyrir þessu og vorum tilbúnir að leggja það á okkur og uppskárum eftir því,“ sagði Sigurður við Vísi eftir leikinn.

Leiknismenn voru undir í hálfleik en komu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og jöfnuðu fljótlega.

„Við færðum okkur aðeins framar. Mér fannst við sterkari aðilinn meginþorra fyrri hálfleiks en vorum ekki alveg nógu góðir í seinni boltunum og staðsetningum þegar við vorum í kringum vítateigana. Ég vildi fá meiri greddu þar, hlaup inn í teiginn, áræðni og það gekk vel,“ sagði Sigurður.

Fyrir aðeins tíu dögum tapaði Leiknir 9-0 fyrir Víkingi. Síðan þá hafa Leiknismenn unnið tvo leiki í röð og eru komnir upp úr fallsæti.

„Við höfum mikið rætt um botnbaráttuna. Þú þarft að vera með hausinn rétt skrúfaðan á og halda einbeitingu þrátt fyrir stóran sigur eða skell; að halda spennustiginu réttu. Liðið hefur verið það síðustu vikur og andlega hliðin hefur verið sterk. Það eru margir leikmenn frá og ýmislegt gengið á en við höfum haldið haus og strákarnir eru að uppskera eftir því. Við höfum haldið dampi í gegnum þetta allt,“ sagði Sigurður.

Leiknismenn fagna með stuðningsmönnum sínum eftir leik.vísir/diego

Sem fyrr sagði er Leiknir ekki lengur í fallsæti nú þegar úrslitakeppnin er framundan. Sigurður segir að það sé vissulega betra en Leiknismenn verði áfram að vera einbeittir og halda vel á spilunum.

„Það getur verið góð hvatning fyrir okkur. Við þurfum að vera tilbúnir í úrslitakeppnina. Þetta er heljarinnar dagskrá. Menn eru vanir því að vera í fríi í október. Það sást alveg í þessum leik að menn eru orðnir þreyttir og við þurfum að nýta þessar tvær vikur ofboðslega vel og mæta tilbúnir til leiks,“ sagði Sigurður að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.