Enski boltinn

Haaland sá fyrsti frá Noregi til að vera valinn

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland er búinn að raða inn mörkum fyrir Manchester City frá því að hann kom til liðsins.
Erling Haaland er búinn að raða inn mörkum fyrir Manchester City frá því að hann kom til liðsins. Getty/Michael Regan

Erling Haaland var strax í fyrstu tilraun valinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta enda hefur hann byrjað leiktíðina stórkostlega með Manchester City.

Haaland, sem keyptur var frá Dortmund í sumar, skoraði níu mörk í fimm deildarleikjum í ágúst. Aðeins Luis Suárez hefur skorað fleiri mörk í einum mánuði en það gerði hann fyrir Liverpool í desember árið 2013 þegar hann skoraði tíu mörk.

Haaland hefur svo haldið áfram að gera vel í september og er kominn með tíu mörk í deildinni auk þess að skora tvö mörk gegn Sevilla og ótrúlegt sigurmark gegn Dortmund í Meistaradeild Evrópu.

Haaland er jafnframt fyrsti knattspyrnumaðurinn frá Noregi sem valinn er besti leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. 

Byrjað var að veita þessa viðurkenningu tímabilið 1994-1995 og þó að ýmsir Norðmenn hafi látið til sín taka í deildinni síðan þá hefur enginn hlotið sömu nafnbót og hinn 22 ára gamli Haaland. 

Landi hans, Martin Ödegaard hjá Arsenal, var þó tilnefndur vegna frammistöðu sinnar í síðasta mánuði sem og þeir Pascal Gross (Brighton), Gabriel Jesus (Arsenal), Aleksandar Mitrovic (Fulham), Nick Pope (Newcastle), Rodrigo (Leeds) og Wilfried Zaha (Crystal Palace).
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.