Enski boltinn

Toney í enska landsliðinu í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ivan Toney er í enska landsliðinu í fyrsta sinn.
Ivan Toney er í enska landsliðinu í fyrsta sinn. getty/Jacques Feeney

Ivan Toney, framherji Brentford, er eini nýliðinn í enska landsliðshópnum sem mætir Ítalíu og Þýskalandi í Þjóðadeild Evrópu síðar í mánuðinum.

Toney, sem er 26 ára, hefur skorað fimm mörk í fyrstu sex leikjum Brentford í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.

Eric Dier, varnarmaður Tottenham, kemur aftur inn í enska hópinn eftir nokkurt hlé. Sömu sögu er að segja af Ben Chilwell, vinstri bakverði Chelsea.

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, og markvörðurinn Jordan Pickford hjá Everton verða fjarri góðu gamni í leikjunum tveimur vegna meiðsla. Manchester United-mennirnir Jadon Sancho og Marcus Rashford hlutu ekki náð fyrir augum Gareths Southgate að þessu sinni.

England mætir Ítalíu á San Siro í Mílanó 23. september og Þýskalandi á Wembley í London þremur dögum seinna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.