Erlent

Dæmdur fyrir morð á starfs­manni bensín­stöðvar sem krafðist grímu­notkunar

Atli Ísleifsson skrifar
Mario N. í dómsal í Bad Kreuznach.
Mario N. í dómsal í Bad Kreuznach. Getty

Dómstóll í Þýskalandi hefur dæmt fimmtugan karlmann í lífstíðarfangelsi fyrir að hafa myrt starfsmann á bensínstöð í Rínarlandi-Pfalz í september á síðasta ári.

Maðurinn, sem kallaður er Mario N. í þýskum fjölmiðlum, myrti starfsmanninn eftir að sá hafði neitað að selja manninum bjór þar sem hann neitaði að nota grímu á bensínstöðinni. Á þeim tímapunkti sem árásin var gerð var grímuskylda í verslunum vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Morðið átti sér stað þann 18. september 2021 í bænum Idar-Oberstein í Rínarlandi-Pfalz, vestur af Frankfurt.

Hinn dæmdi er þýskur ríkisborgari og var með hreina sakaskrá þegar árásin var gerð.

Eftir að hafa verið neitað um afgreiðslu hélt maðurinn út af bensínstöðinni en sneri aftur skömmu síðar og skaut þá hinn tvítuga starfsmann til bana. Verjendur mannsins sögðu hann hafa verið undir áhrifum áfengis þegar árásin var gerð.

Þegar hann var handtekinn viðurkenndi hann verknaðinn og sagði lögreglumönnum að hann hafi viljað „standa á sínu“ eftir að hafa verið beygður vegna margra mánaða af takmörkunum stjórnvalda sem ætlaðar voru til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.


Tengdar fréttir

Skotinn til bana eftir að hafa krafið við­skipta­vin um að bera grímu

Tvítugur starfsmaður bensínstöðvar í þýska bænum Idar-Oberstein var skotinn til bana eftir að hafa krafið viðskiptavin bensínstöðvarinnar um að bera grímu þar inni síðasta laugardagskvöld. Morðinginn hefur verið handtekinn og segist við lögreglu hafa verið ringlaður af álagi vegna takmarkana sökum heimsfaraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×