Enski boltinn

Segir að Liverpool hefði frekar átt að kaupa Toney

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ivan Toney hefur byrjað tímabilið af krafti.
Ivan Toney hefur byrjað tímabilið af krafti. getty/Steve Bardens

Liverpool hefði frekar átt að kaupa Ivan Toney en Darwin Nunez. Þetta segir stjórnarformaður Peterborough United, Darragh MacAnthony.

Málið er MacAnthony vissulega mjög skilt enda spilaði Toney með Peterbrough um tveggja ára skeið. Þar skoraði hann 49 mörk í 94 leikjum. Brentford tók í kjölfarið upp veskið og keypti Toney. Hann hefur skorað 52 mörk í 96 leikjum fyrir Brentford, þar af fimm mörk í sex leikjum í vetur.

MacAnthony, sem er stuðningsmaður Liverpool, segir að Rauði herinn hefði betur keypt Toney en Nunez. Liverpool greiddi Benfica 85 milljónir punda fyrir Nunez í sumar.

„Leyfðu mér að spyrja þig að þessu. Darwin Nunez, 85 milljóna punda maður, eða Ivan Toney. Hvor er betri framherji?“ sagði MacAnthony í hlaðvarpinu The Hard Truth.

„Nunez gæti átt frábæran feril og gert vel fyrir Liverpool. Liðið er mjög beinskeytt og öll mörkin okkar koma í gegnum bakverðina og lágar fyrirgjafir. Segðu mér að Ivan Toney myndi ekki skora 25 mörk fyrir Liverpool með þessa bakverði. Láttu ekki svona!“

Toney, sem er 26 ára, skoraði þrennu þegar Brentford sigraði Leeds United, 5-2, í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Talið er að hann eigi fína möguleika á að vera valinn í enska landsliðið fyrir næstu leiki þess.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.