Erlent

Segir brýnt að á­rásar­mennirnir verði sóttir til saka

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada segir brýnt að mennirnir verði sóttir til saka.
Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada segir brýnt að mennirnir verði sóttir til saka. Getty/Sean Gallup

Tveir menn, sem taldir eru hafa stungið tíu til bana og sært fimmtán í héraðinu Saskatchewan í Kanada í gær, eru enn ófundnir. Forsætisráðherra landsins segist fylgjast grannt með stöðu mála og brýnt sé að árásarmennirnir verði sóttir til saka. 

Lögreglan í Kanada hefur lýst eftir tveimur mönnum, Damien Sanderson og Myles Sanderson, vegna árásanna. Talið er að þeir hafi hafið árásarhrinuna klukkan 5:40 í gærmorgun að staðartíma. Fljótlega hafi tilkynningarnar farið að hrannast inn frá þrettán mismunandi stöðum í héraðinu. Flestar árásanna voru þó í James Smith Cree samfélaginu og bænum Weldon. 

Talið er að mennirnir tveir hafi valið hluta fónarlambanna en ráðist á hluta þeirra af handahófi. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Saskatchewan og í nágrannahéruðunum Alberta og Manitoba. 

Forsætisráðherrann Justin Trudeau sagði í yfirlýsingu sem hann birti á heimasíðu sinni í gær að kanadíska ríkisstjórnin hafi verið í beinu sambandi við leiðtoga James Smith Cree þjóðarinnar. Þá sagði hann að árásarmannirnir þyrftu að taka ábyrgð á gjörðum sínum og mikilvægt sé að þeir verði sóttir til saka.

Um eitt þúsund eru hluti af samfélagi James Smith Cree en þjóðin býr um sextíu kílómetra suðaustur af Prince Albert og í um 300 kílómetra fjarlægð norður af Regina. 

Tæplega 200 búa í bænum Weldon sem er um 25 kílómetra suðvestur af James Smith Cree og um 60 kílómetra suðaustur af Prince Albert. Búið er að koma upp nokkrum vegatálmum svo lögregla geti fylgst með hvort grunaðir árásarmenn verði á vegi þeirra. 

Talið er að mennirnir séu enn í Saskatchewan en talið er að til þeirra hafi sést í Reginu seint í gærkvöldi. Talið er a þeir ferðist um á svörtum NIssan Rogue. Ekkert bendi til þess að mennirnir hafi ráðist á nokkurn í nágrannahéruðum. 

Saskatchewan-hérað er um miðbik Kanada, milli Alberta og Manitoba.

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×