Erlent

Flaggskip breska flotans vélarvana

Samúel Karl Ólason skrifar
HMS Prince of Wales undan ströndum Bretlands.
HMS Prince of Wales undan ströndum Bretlands. Getty/Christopher Furlong

Umfangsmikil bilun varð í vél stærsta herskips Bretlands og flaggskipi breska flotans, HMS Prince of Wales, í gær. Verið var að sigla skipinu til Ameríku þegar bilunin varð og var skipið skammt suður af Bretlandi, þar sem það lá við ankeri.

Nú virðist sem að sigla eigi skipinu aftur til hafnar, eins og sjá má á vef Marine Traffic.

Skipið er annað af tveimur flugmóðurskipum Bretlands og kostaði smíði skipsins um 3,1 milljarða punda. Það samsvarar rúmum fimm hundruð milljörðum króna. Skipið er 280 metra langt, sjötíu metrar á breidd og ber skipið 36 F-35B orrustuþotur og fjórar Merlin-þyrlur, auk dróna.

Miðillinn UK Defence Journal hefur eftir heimildarmönnum sínum að talið sé að öxull stjórnborðsskrúfu flugmóðurskipsins sé skemmdur.

Glöggir lesendur muna ef til vill eftir því að Prince of Wales var lagt upp að bryggju hér á Íslandi í vor.

Prince of Wales var siglt frá Portsmouth á laugardaginn og var stefnan sett á New York í Bandaríkjunum, Halifax í Kanada og Karíbahafið. Í yfirlýsingu á vef breska flotans var því haldið fram að verkefni flugmóðurskipsins myndi móta framtíðarvarnarstörf undan ströndum Norður-Ameríku og í Karíbahafinu.

Í Ameríku átti að flytja F-35B orrustuþotur um borð í flugmóðurskipið og átti áhöfn skipsins og flugmenn að taka þátt í æfingum með bandaríska flotanum.

HMS Prince of Wales er systurskip HMS Queen Elizabeth en Bretar lögðu mikið púður í smíði skipanna, sem eiga að tryggja áhrif Breta á heimshöfunum sjö.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×