Erlent

Bretar gera sig breiða og sigla flota um höf Asíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Breska flugmóðurskipið HMS Queen Elizabeth.
Breska flugmóðurskipið HMS Queen Elizabeth. EPA/GERRY PENNY

Bretar munu í næsta mánuði senda herflota á siglingu um Asíu og Kyrrahaf. Um stærsta flota Bretlands í áraraðir er að ræða og verður nýja flugmóðurskipið HMS Queen Elizabeth í flotanum. Það er annað flugmóðurskip Bretlands og stærsta herskip sem ríkið hefur sett á flot.

Flotinn mun heimsækja Indland, Japan, Suður-Kóreu, Singapúr og fjölda annarra ríkja. Þá mun flotinn taka þátt í æfingum og er áætlað að siglingin muni taka um hálft ár.

Auk flugmóðurskipsins verður flotinn skipaður sex öðrum herskipum og kafbáti. Herskip frá Bandaríkjunum og Hollandi munu einnig fylgja flotanum.

Með siglingunni vilja Bretar sýna að þeir ætla sér að hafa áhrif á alþjóðasviðinu og auka viðveru sína í Asíu. Ben Wallace, varnarmálaráðherra, sagði í gær að siglingin myndi styrkja pólitísk samskipti Breta við bandamenn í Asíu.

Hann sagði að markmiðið væri ekki að ögra ríkjum Asíu og vísaði hann sérstaklega til Kína. Líkur eru á því að flotanum verði siglt í gegnum Suður-Kínahaf, sem Kínverjar hafa gert ólöglegt tilkall til.

Eins og segir í grein AP fréttaveitunnar, þá tilkynnti Boris Johnson, forsætisráðherra, í síðasta mánuði að Bretar myndu leggja sérstaka áherslu á Asíu á komandi árum, í kjölfar útgöngu ríkisins úr Evrópusambandinu.

Greinendur segja í samtali við blaðamenn CNN að flotinn verði sá öflugasti sem Evrópuríki hafi gert út um árabil, þó hann gæti ekki staðið í hárinu á einum af flotum Bandaríkjanna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×