Innlent

Stærsta herskip sem sést hefur á Íslandi við bryggju í Reykjavík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Breska flugmóðurskipið HMS Prince of Wales siglir inn til Reykjavíkur í morgun.
Breska flugmóðurskipið HMS Prince of Wales siglir inn til Reykjavíkur í morgun. Vilhelm Gunnarsson

Stærsta herskip sem komið hefur til Íslands og flaggskip breska sjóhersins, flugmóðurskipið Prince of Wales, verður í Reykjavík fram á föstudag. Koma skipsins tengist þó ekki varnaræfingunni Norður-Víkingi heldur er liður í reynslusiglingum skipsins um Norður-Atlantshaf.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá flugmóðurskipið leggjast að bryggju í Reykjavík. Skipið er það nýtt að það telst enn vera í reynslusiglingum, sem hófust í fyrra, en gert er ráð fyrir að það verði komið í fulla þjónustu breska sjóhersins á næsta ári.

Fjórir dráttarbátar og tveir lóðsbátar tóku þátt í að koma flugmóðurskipinu að bryggju.Egill Aðalsteinsson

Hingað kemur það frá Noregsströndum þar sem það tók þátt í sinni fyrstu heræfingu, NATO-æfingunni Cold Response. Freigátan Richmond fylgir skipinu.

Ásamt systurskipi sínu, Queen Elizabeth, er Prince of Wales stærsta og fullkomnasta herskip sem smíðað hafa verið fyrir breska sjóherinn sem lítur á þessa bryndreka sem flaggskip bresku krúnunnar.

Skipið er 280 metra langt og mesta breidd þess 73 metrar og er þetta stærsta herskip sem komið hefur til Íslands. Það er stærra en bandaríska flugmóðurskipið Wasp sem áður átti metið og kom hingað árið 1964. Það skip var 250 metra langt en lagðist þó ekki að bryggju.

Flugmóðurskipið er 280 metra langt og 73 metra breitt.Egill Aðalsteinsson

Fjögur herskip sem taka þátt í Norður-Víkingi voru hér í höfn um helgina og von á einhverjum þeirra til Reykjavíkur eftir æfinguna í næstu viku.

Koma breska flugmóðurskipsins og fylgdarskips þess tengist hins vegar ekki Norður-Víkingi. Þau eru sögð hér í reynslusiglingum um Norður-Atlantshaf. Áhugamönnum um stríðstól gefst hins vegar kostur á að berja þau augum í Sundahöfn næstu fjóra sólarhringa því áætlað er að þau liggi þar við bryggju fram á föstudagsmorgun.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×