Stórleikur umferðarinnar fór fram á Akureyri þar sem Íslandsmeistarar Víkings mættu heimamönnum í KA. Leikurinn var mikil skemmtun og voru það gestirnir sem tóku forystuna þegar Erlingur Agnarsson stangaði fyrirgjöf Pablo Punyed.
Í kjölfarið átti Ari Sigurpálsson skot í slá og svo skoraði Sveinn Margeir Hauksson fyrir KA en markið var dæmt af þar sem Sveinn Margeir var talinn brotlegur í aðdragandanum. Hann var það hins vegar ekki sjö mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann skoraði með skoti sem Ingvar Jónsson varði í raun í hnéð á Kyle McLagan og í netið.
Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og staðan 1-1. Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði stórglæsilegt mark á 67. mínútu og kom KA yfir. Fyrirliðinn Júlíus Magnússon steig þá upp og stangaði hornspyrnu Loga Tómassonar í netið. Það var svo Birnir Snær Ingason sem tryggði Íslandsmeisturunum sigurinn með skoti sem fór af varnarmanni og í netið á 90. mínútu leiksins, lokatölur 2-3.
Topplið Breiðabliks valtaði yfir botnlið Leiknis Reykjavíkur á Kópavogsvelli, lokatölur 4-0. Mikkel Qvist kom heimamönnum yfir með skalla eftir hornspyrnu fyrirliðans Höskuldar Gunnlaugssonar. Heimamenn fengu svo vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en Atli Jónasson sá við Höskuldi.
Í síðari hálfleik gengu Blikar á lagið. Sölvi Snær Guðbjargarson kom þeim í 2-0, Gísli Eyjólfsson í 3-0 og Dagur Dan Þórhallsson í 4-0 undir lok leiks.
ÍBV vann góðan 3-1 sigur á Stjörnunni þar sem gestirnir úr Garðabæ óðu í færum í upphafi leiks. Þeir nýttu þó aðeins eitt, það gerði Einar Karl Ingvarsson með skoti fyrir utan vítateig. Andri Rúnar Bjarnason skoraði hins vegar tvívegis undir lok fyrri hálfleiks. Fyrra markið kom með frábærum skalla af löngu færi og hitt var yfirveguð afgreiðsla frá vítateigslínunni.
Arnar Breki Gunnarsson gerði svo út um leikinn snemma í síðari hálfleik með þriðja marki heimamanna. Skömmu áður hafði Jóhann Árni Gunnarsson fengið sitt annað gula spjald og þar með rautt í liði Stjörnunnar. Gestirnir áttu engin svör og lauk leiknum með 3-1 sigri ÍBV.
ÍA vann 1-0 sigur í Keflavík þökk sé marki Olivers Stefánssonar undir lok leiks.
KR og FH gerðu markalaust jafntefli í frekar döprum leik á Meistaravöllum.