Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik 4-0 Leiknir | Blikar ekki í vandræðum með Leikni

Árni Konráð Árnason skrifar
blikar 2
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Breiðablik vann sannfærandi 4-0 sigur á Leiknismönnum í 18. umferð Bestu-deildarinnar í kvöld. Mörk Breiðabliks gerðu Mikkel Qvist, Sölvi Snær, Gísli Eyjólfsson og Dagur Dan. Þetta var jafnframt fyrsta mark Gísla Eyjólfssonar í Bestu deildinni í sumar, en Gísli hefur verið einn af bestu leikmönnum Bestu deildarinnar þrátt fyrir að hafa átt í vandræðum með að finna netið.

Blikar byrjuðu leikinn með látum og strax á 7. mínútu átti Gísli Eyjólfsson fast skot beint í slánna og þaðan niður og virtist hafa skoppað inn, en Egill Arnar ekki á því. Blikar héldu áfram að sækja og á 15. mínútu náði Jason Daði að koma sér í ágætis skotfæri, en skot hans rétt yfir markið af stuttu færi.

Leiknismenn voru agaðir, vörðust vel og beittu skyndisóknum bróðurpart leiksins. Á 19. mínútu munduðu Leiknismenn skyndisókn og átti Mikkel Dahl frábæra sendingu fram hjá Damir og Zean Peetz Dalügge sloppinn einn í gegn en skot hans fór hársbreidd framhjá markinu.

Blikar fengu ófáar hornspyrnur í leiknum og ein þeirra kom á 32. mínútu. Höskuldur með hornspyrnuna á fjærstöng þar sem að Mikkel Qvist hoppaði hæst allra og stangaði boltann gjörsamlega í netið, 1-0 fyrir Breiðablik.

Það dró svo til tíðinda á 45. mínútu þegar Daði Bærings braut á Ísaki Snæ inn í teig Leiknismanna. Egill Arnar handviss í sinni sök og flautar víti, Höskuldur Gunnlaugsson fór á punktinn en Atli Jónasson ver frá Höskuldi. Atli kom óvænt inn í lið Leiknismanna eftir að Viktor meiddist í upphitun. Mörkin urðu þó ekki fleiri í fyrri hálfleik og gengu Blikar 1-0 yfir til búningsherbergja í hálfleik.

Blikar byrjuðu svo síðari hálfleik með látum, en á 50. mínútu vann Sölvi Snær boltann af Daða Bærings hátt upp á vellinum og hljóp í átt að markinu þar sem að hann átti frábært skot í fjærhornið og boltinn söng í netinu, 2-0 fyrir Breiðablik og var þetta jafnframt þriðji leikurinn í röð þar sem að Sölvi skorar.

Gísli Eyjólfsson hefur verið í vandræðum með að finna netið í sumar en það sást á honum frá byrjun leiks að nú ætlaði hann að enda þurrkinn. Það gerði hann svo á 72. mínútu eftir stoðsendingu frá Ísaki Snæ. Ísak átti skot sem að Atli varði í átt að Kristni Steindórssyni, Kristinn potaði boltanum í varnarmann og boltinn út í teig þar sem að Ísak nær boltanum, virðist ætla að skjóta en hælar boltann í átt að Gísla sem að setur hann í netið fyrir framan nánast autt mark, 3-0 fyrir Breiðablik.

Blikar skoruðu síðan frábært mark á 87. mínútu þegar að Gísli var með boltann við D-bogann og hótaði skotinu í tvígang áður en hann skilur boltann eftir fyrir Dag Dan sem að snertir boltann inn í teiginn og setur hann nánast í þaknetið, 4-0 fyrir Blikum og reyndust það lokatölur leiksins. Breiðablik er nú með 9 stiga forskot á toppnum en Leiknir situr í neðsta sæti með 13 stig eftir 18 leiki.

Af hverju vann Breiðablik?

Leiknismenn voru agaðir í leiknum en gæði Blika eru slík að það var lítið sem að Leiknismenn gátu gert. Sigurður Höskulds þjálfari leik orðaði þetta best sjálfur í viðtali eftir leik þegar að hann sagðist hafa lent í „blika hakkavélinni“

Hverjir stóðu upp úr?

Gísli Eyjólfsson átti frábæran leik, mark og stoðsending og var mikið í boltanum. Þá var Dagur Dan frábær og var út um allan völl, mjög öflugur leikmaður.

Hvað gerist næst?

Blikar fá stutta hvíld og spila gegn Víking Reykjavík í bikarnum á miðvikudaginn. Leiknismenn spila gegn FH í fallbaráttuslag 4. september kl. 14:00.

„Við lentum í Blika hakkavélinni“

Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta er svolítið sagan okkar í sumar, missum Óttar út af eftir höfuðhögg. Ég held að þetta sé í áttunda skipti sem að við þurfum að gera skiptingu í fyrri hálfleik“ sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis. Óttar Bjarni þurfti að yfirgefa völlinn á 27. mínútu eftir að hafa lent í samstuði við samherja sinn Dag Austmann.

„Blikarnir frábærir, geggjaðir – við náðum að halda aftur af þeim í fyrri hálfleik. Fáum eitt dauðafæri sem að hefði getað gefið okkur meiri kraft. Þeir skora svo úr föstu leikatriði í fyrri hálfleik og þeir eru bara svo góðir í öllum hliðum leiksins. Við verðum að standa hvert einasta móment af, að fá á okkur mark úr horni er pirrandi“ sagði Sigurður en var að vonum hæstánægður með Atla sem að varði víti í lok fyrri hálfleiks.

„Við byrjum síðan seinni hálfleikinn á að fá mark á okkur, klaufalegt mark, eftir fimm mínútur. Þá fer hálfleikssagan aðeins út um gluggann, það sem að við ætluðum að leggja áherslu á í seinni hálfleik. Við lögðum líf og sál í þetta, ég er hrikalega stoltur af liðinu. Mér fannst margt ofboðslega jákvætt í þessu, hvernig leikmenn höguðu sér inn á vellinum og við hættum aldrei, mér fannst þetta fínt“ sagði Sigurður og hrósar Blikum í hástert, segir þá öfluga í öllum hliðum leiksins. „við lentum í Blika hakkavélinni.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira