Innlent

Unga fólkið af svæðinu stendur vaktina í Kiða­gili

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Starfsfólk Kiðagils eru allt Íslendingar og allir úr sveitinni.
Starfsfólk Kiðagils eru allt Íslendingar og allir úr sveitinni. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Í Bárðardal í Suður – Þingeyjarsýslu er rekin ferðaþjónusta á Kiðagili þar sem systurnar í Svartárkoti og fjölskyldur þeirra sjá um reksturinn. Það hefur verið meira en nóg að gera í sumar og bókunarstaða er mjög góð fram á haust. Maturinn fyrir gesti kemur meira og minna allur úr sveitinni.

Á Kiðagili er líka skemmtileg sýning um líf útilegumanna á Íslandi á árum áður og þar er líka hægt að fara inn í helli og upplifa smá útilegumannastemmingu.

„Allt svona, sem er aðeins sjónrænt er náttúrulega bara meiri upplifun fyrir gesti okkar. Inni á gangi er fullt af upplýsingum um útilegumenn en hérna fær fólk að sjá hvernig þetta hefur hugsanlega litið út. Langflestar sögurnar eru um karla, þeir rændu sér konum og rændu sér börnum en Eyvindur og Halla eru náttúrlega par. Við segjumst stundum vera síðustu útilegumennirnir búandi við rætur Ódáðahrauns,“ segir Guðrún Sigríður Tryggvadóttir rekstraraðili á Kiðagili og hlær.

Systurnar eru alsælar með ferðaþjónustuna á Kiðagili og eru hæstánægðar með hvað ferðamenn eru duglegir að heimsækja staðinn og gista þar í jafnvel nokkrar nætur.

„Og síðan reynum við að skapa atvinnu fyrir heimafólk, við erum meira og minna með unga krakka og ungt fólk af svæðinu,“ segir Sigurlína Tryggvadóttir rekstraraðili á Kiðagili.

Kiðagil er vinsæll ferðamannastaður, sem gaman er að heimsækja.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Það er líka bara algjör forréttindi að geta verið með svona stað og verðið með íslenskt starfsfólk,“ bætir Guðrún við.

Daníel Róbert Magnússon er einn af starfsmönnunum.

„Mér finnst skemmtilegast að vinna í eldhúsinu og elda. Ég er ekki góður í að búa um rúm og þannig, eldhúsið er minn staður,“ segir Daníel Róbert alsæll með vinnuna sína.

Systurnar Sigurlína (t.v.) og Guðrún Sigríður, sem reka ferðaþjónustuna á Kiðagili með sínum fjölskyldum.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×