Enski boltinn

Áfrýjar í nauðgunarmáli Ronaldo

Valur Páll Eiríksson skrifar
Málið gegn Ronaldo hefur dregist töluvert og mun gera það enn frekar.
Málið gegn Ronaldo hefur dregist töluvert og mun gera það enn frekar. EPA-EFE/Peter Powell

Kathryn Mayorga hefur áfrýjað ákvörðun héraðsdómara í Bandaríkjunum sem vísaði í sumar frá lögsókn sem hún höfðaði gegn fótboltastjörnunni Cristiano Ronaldo vegna meintar nauðgunar árið 2009.

Mayorga ásakar Ronaldo um að hafa brotið á sér í þakíbúð í Las Vegas sumarið 2009, en sama sumar gekk hann í raðir Real Madrid frá Manchester United og varð dýrasti knattspyrnumaður heims á þeim tíma.

Málið komst fyrst í fjölmiðla árið 2017 en það hafði verið afgreitt árið 2010 þar sem lögmenn Mayorga og Ronaldo sættust á 275 þúsund punda sáttagreiðslu svo að málið yrði látið niður falla. Upphæðin jafngildir tæplega 46 milljónum króna.

Mayorga tók málið upp að nýju þegar það komst í fjölmiðla 2017 en saksóknarar vestanhafs ákváðu að aðhafast ekki í málinu og settu ekki fram kæru gegn Ronaldo eftir að hafa farið yfir atriði máls.

Mayorga höfðaði þá einkamál gegn Ronaldo árið 2018 en féll frá því máli ári síðar. Ekki lá ljóst fyrir hvort að Ronaldo hafi greitt frekari bætur á þeim tímapunkti.

Hún höfðaði annað mál í fyrra en því var vísað frá af héraðsdómaranum Jennifer Dorsey í sumar. Dorsey sakaði lögmann Mayorga um blekkingar og að hafa sett fram illa fengin skjöl í málinu. Enn fremur sagði dómarinn sagði rökin að baki lögsókninni bæði „fáránleg og ósannfærandi“.

Eftir að málinu var vísað frá lögsóttu lögmenn Ronaldos lögmann Mayorga og kröfðu um bætur upp á 626 þúsund pund, um 83 milljónir króna.

Lögmenn Mayorga hafa nú áfrýjað ákvörðun Dorsey og verður sú áfrýjun tekin til skoðunar fyrir rétti í San Francisco á þriðjudaginn kemur. Mayorga krefst 54 milljón punda skaðabóta frá Ronaldo vegna meintrar nauðgunarinnar, tæplega níu milljarða króna - um 200 sinnum hærri upphæð en hún fékk greidda árið 2010.

Ronaldo hefur alla tíð neitað sök en eftir að Mayorga höfðaði málið opinberlega árið 2018 sagði hann: „Ég neita staðfastlega öllum þeim ásökunum sem eru á mig lagðar. Nauðgun er viðurstyggilegur glæpur sem gengur gegn öllu því sem ég er og trúi á“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×