Enski boltinn

United og Real Madrid komast að samkomulagi um Casemiro

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Casemiro verður að öllum líkindum orðinn leikmaður Manchester United á næstu dögum.
Casemiro verður að öllum líkindum orðinn leikmaður Manchester United á næstu dögum. Antonio Villalba/Real Madrid via Getty Images

Manchester United hefur komist að samkomulagi við Real Madrid um kaupverðið á brasilíska miðjumanninum Casemiro. United mun greiða rétt tæplega 60 milljónir punda fyrir leikmanninn.

Meðal þeirra sem greina frá þessu eru Sky Sports og félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano, en þessi þrítugi miðjumaður á þó eftir að semja við félagið um kaup og kjör áður en kaupin ganga í gegn. Samkvæmt heimildum Sky Sports styttist þó í það að samningar milli leikmannsins og félagsins séu í höfn.

Búist er við því að Casemiro lendi á Bretlandseyjum einhverntíman á næstu tveimur sólarhringum til að gangast undir læknisskoðun og skrifa svo í kjölfarið undir fjögurra ára samning við United, með möguleika á eins árs framlengingu.

Casemiro hefur verið í herbúðum Real Madrid frá árinu 2013, ef frá er talið eitt tímabil þar sem hann var á láni hjá Porto. Hann hefur leikið 336 leiki fyrir félagið, skorað í þeim 31 mark og lagt upp önnur 29 fyrir liðsfélaga sína.

Hjá Real Madrid hefur Casemiro unnið allt sem hægt er að vinna í félagsliðafótbolta, en hann á einnig að baki 65 leiki fyrir brasilíska landsliðið

Uppfært: Bæði Real Madrid og Manchester United hafa birt færslur á heimasíðum sínum þar sem félögin staðfesta að samkomulag um félagsskiptin sé í höfn. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.