Díaz bjargaði stigi eftir rautt spjald Núñez

Valur Páll Eiríksson skrifar
Díaz skoraði laglegt mark til að tryggja Liverpool stig. Liðið er enn sigurlaust eftir tvo leiki.
Díaz skoraði laglegt mark til að tryggja Liverpool stig. Liðið er enn sigurlaust eftir tvo leiki. EPA-EFE/ANDREW YATES

Liverpool og Crystal Palace skildu jöfn, 1-1, í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í kvöld. Liverpool spilaði síðasta hálftíma leiksins manni færri eftir að nýji maðurinn Darwin Núñez fékk beint rautt spjald.

Liverpool hóf leik kvöldsins af töluverðum krafti en tókst ekki að færa sér yfirburðina í nyt. Þónokkur ágætis færi fóru forgörðum á upphafskaflanum en fyrri hálfleikurinn einkenndist helst af misheppnuðum tilraunum Liverpool til að brjóta afar þéttan varnarmúr Crystal Palace á bak aftur.

Liverpool hafði átt ellefu skot á fyrsta hálftímanum en fæst þeirra hittu rammann. Það var þá sem Palace komst nánast í fyrsta sinn yfir miðju í leiknum en Eberchi Eze fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Palace eftir þunga sókn heimamanna. Hann tímasetti fullkomnlega sendingu inn fyrir þá Nat Phillips og Virgil van Dijk sem stóðu rétt aftan miðjulínunnar, á Wilfried Zaha, sem stakk miðverði Liverpool af og afgreiddi boltann laglega fram hjá Alisson Becker í marki Liverpool. Fyrsta skot Palace í leiknum fór í netið og liðið leiddi 1-0 í hálfleik gegn bitlausu Liverpool-liði.

Zaha kom Palace yfir eftir frábæra sendingu frá Eberechi Eze.Clive Brunskill/Getty Images

Síðari hálfleikurinn fór ekki blómlega af stað fyrir heimamenn en þegar aðeins tólf mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum var Úrúgvæanum Darwin Núñez vísað af velli. Hann skallaði þá Danann Joachim Andersen úr liði Palace í andlitið og entist því aðeins í 57 mínútur í sínum fyrsta byrjunarliðsleik á Anfield. Hann á líkast til yfir höfði sér þriggja leikja bann, þar sem um er að ræða ofbeldisfulla hegðun.

Leikmenn Liverpool lét það þó ekki á sig fá. Aðeins fjórum mínútum eftir að Úrúgvæanum var hent í sturtu átti Luis Díaz frábæran sprett inn á völlinn af vinstri kantinum, lék á fjölda leikmanna Palace og negldi boltann svo niður í hornið hægra megin. Staðan var því orðin 1-1.

Nunez var ekki ánægður með dóminn.EPA-EFE/ANDREW YATES

Liverpool hélt áfram að stýra ferðinni þrátt fyrir að vera manni færri. Þreyta virtist færast í Palace-menn eftir að hafa sinnt orkufrekum varnarleik stærstan hluta leiksins. Wilfried Zaha fékk hins vegar gullið tækifæri til að koma gestunum í forystu á ný þegar hann skaut í stöng af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá vinstri á 77. mínútu leiksins.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki og eru þau bæði sigurlaus eftir fyrstu tvo leiki tímabilsins. Liverpool er með tvö stig, eftir jafntefli við Fulham í fyrsta leik, en Crystal Palace er með eitt, eftir tap fyrir Arsenal síðustu helgi.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.