Þessar hugmyndir eru nokkuð nýstárlegar komandi úr ranni atvinnurekenda.
Þannig hafa margir kannski rekið upp stór augu við lestur á pistli Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, sem hann birti í Viðskiptablaðinu í gær. Þar stingur hann upp á að forstjórar lækki laun sín.
„Já, ég er kannski að litlu leyti að tala inn í hóp minna félagsmanna í Félagi atvinnurekenda. Þar eru mest lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem er ekkert óhóf í gangi í launagreiðslum stjórnenda eða bónusum eða einhverju slíku,“ segir Ólafur.
Það gildi þó allt annað um stærstu fyrirtæki landsins.
„Þar er hægt að nefna dæmi frá undanförnum misserum um launahækkanir forstjóra sem nema margföldum verkamannalaunum, um að bónusgreiðslurnar til dæmis hjá fjármálafyrirtækjunum sem voru eiginlega horfnar eftir hrun séu komnar aftur og arðgreiðslur séu svona býsna ríflegar,“ segir Ólafur.
Hann vill að stjórnendur þessara fyrirtækja fari nú að sýna ábyrgð og skynsemi rétt eins og atvinnurekendur biðla iðulega til verkalýðsfélaga að gera í aðdraganda kjarasamningsviðræðna.
Þeir hafi sýnt ábyrgðarleysi upp á síðkastið.
„Já, ég held að það sé hægt að telja upp nokkur axarsköft í þessari viðkvæmu stöðu sem menn ættu að minnsta kosti að gæta sín á að endurtaka ekki,“ segir Ólafur.
Geturðu nefnt einhver dæmi þar?
„Ég ætla ekki að nefna neinn einstakan.“
Ekki innistæða fyrir nafnlaunahækkunum
Minni fyrirtækin segir Ólafur að séu afar stressuð fyrir komandi kjaraviðræðum en þau hafi ekki tök á launahækkunum í því efnahagsástandi sem ríkir nú.
Krafan er því ekki að forstjórar lækki laun svo önnur laun geti hækkað - þvert á móti vill Ólafur að þetta sýni gott fordæmi fyrir kjaraviðræðurnar í haust.
„Það er bara svo afskaplega mikilvægt að kjarasamningar sem verða gerðir á næstunni feli ekki í sér einhverjar innistæðulausar nafnlaunahækkanir því þær munu bara fara beint út í verðlagið og skerða kaupmáttinn og gera illt verra. Það mun ekki bæta neitt,“ segir Ólafur.