Innherji

Fjárfestar eiga von á 60 milljörðum í arð, gæti virkað sem vítamínsprauta fyrir markaðinn

Hörður Ægisson skrifar
Mestu munar um boðaða 22,5 milljarða arðgreiðslu Arion banka til hluthafa sinna eftir tvær vikur. Bankinn greiddi út meira en 30 milljarða í formi arðs og endurkaupa á eigin bréfum í fyrra.
Mestu munar um boðaða 22,5 milljarða arðgreiðslu Arion banka til hluthafa sinna eftir tvær vikur. Bankinn greiddi út meira en 30 milljarða í formi arðs og endurkaupa á eigin bréfum í fyrra.

Hlutabréfafjárfestar eiga von á því að fá samanlagt nærri 60 milljarða króna í sinn hlut í arð og aðrar greiðslur í tengslum við lækkun hlutafjár á komandi vikum frá þrettán félögum í Kauphöllinni. Það er um þrefalt hærri upphæð en skráð fyrirtæki greiddu út í arð til fjárfesta á öllu árinu 2021.

Arðgreiðslurnar, sem verða að stærstum hluta inntar af hendi í þessum mánuði, koma á sama tíma og hlutabréfaverð hefur farið hríðfallandi eftir innrás Rússa í Úkraínu en Úrvalsvísitalan hefur lækkað um meira en 14 prósent frá áramótum. Viðmælendur Innherja á fjármálamarkaði telja víst að meirihluti þeirra fjármuna muni streyma aftur inn á markaðinn og endurfjárfest í félögum í Kauphöllinni, eins og oftast hefur verið raunin, einkum með hliðsjón af því að verðlagning margra þeirra er nú orðin hagstæðari eftir skarpar lækkanir á undanförnum vikum.

Mestu munar um boðaða 22,5 milljarða arðgreiðslu Arion banka eftir tvær vikur og þá mun Íslandsbanki greiða út 11,9 milljarða króna í arð til hluthafa sinna í lok þessa mánaðar, en þær fara hins vegar að meirihluta til ríkissjóðs sem fer enn með 65 prósenta eignarhlut í bankanum.

Samtals munu hluthafar skráðra félaga fá um 52 milljarða króna í sinn hlut í arðgreiðslur í marsmánuði og að auki verða um 10 milljarðar króna greiddir til fjárfesta í næsta mánuði vegna úthlutunar á arði og greiðslum tengdum niðurfærslu hlutafjár hjá Eimskip. Þá er líklegt að Síminn muni ráðast í sérstaka arðgreiðslu til hluthafa sinna síðar á árinu en útgreiðslugeta félagsins verður mikil þegar salan á dótturfélaginu Mílu til franska sjóðsins Ardian fyrir 78 milljarða klárast um mitt þetta ár. Fram hefur komið að söluhagnaðurinn nemur 46 milljörðum og þá fær Síminn einnig framseljanlegt skuldabréf í skiptum fyrir hlutinn í Mílu.

Til viðbótar við arðgreiðslurnar, sem aukast að lágmarki um 40 milljarða króna frá fyrra ári, er einnig útlit fyrir að endurkaup félaga í Kauphöllinni á eigin bréfum verði í hæstu hæðum og enn meiri en á árinu 2021 þegar þau voru samtals rúmlega 60 milljarðar. Væntingar eru um að heildararðgreiðslur og kaup á eigin bréfum fyrirtækja, eins og Innherji hefur áður fjallað um, verði sögulega háar í ár og geti samanlagt numið á bilinu 150 til um 200 milljarðar króna.

Þær arðgreiðslur sem er í pípunum á næstu vikum gætu virkað sem vítamínsprauta fyrir hlutabréfamarkaðinn. Þrátt fyrir að ómögulegt sé að slá því föstu hversu stór hluti þeirra muni leita aftur inn á markaðinn þá er það mat viðmælenda Innherja að stórum hluta þeirra verði endurfjárfest að nýju í hlutabréfum. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu eigendurnir, með samanlagt um 40 prósent af markaðsvirði skráðu félaganna, og líklegt er að meðal annars megnið af arðgreiðslum til þeirra rati aftur inn á hlutabréfamarkaðinn.

Þá er eignarhald erlendra sjóða af öllum markaðnum hverfandi en reynslan hefur sýnt að sá hópur fjárfesta hefur aðeins að litlum hluta fjárfest sínum arðgreiðslum að nýju inn á hlutabréfamarkaðinn.

Markaðir réttu úr kútnum í gær og hækkaði Úrvalsvísitalan um 2,2 prósent en vísitalan hafði fyrir það lækkað um liðlega 10 prósent frá þeim tíma þegar Rússar réðust inn í Úkraínu.

Lífeyrissjóðirnir héldu sig að mestu til hlés í að gera kauptilboð í félögum á markaði fyrstu dagana eftir að stríðsátökin hófust aðfaranótt fimmtudagsins 24. febrúar síðastliðins. „Þegar líða fór á síðustu viku voru lífeyrissjóðirnir hins vegar mættir í stórum stíl og ryksuguðu til sín töluvert af bréfum,“ sagði einn hlutabréfasjóðstjóri í samtali við Innherja síðasta mánudag, og hefur sú þróun haldið áfram í þessari viku.

Samkvæmt viðmælendum Innherja á markaði hafa að undanförnu verið einhver dæmi um að skuldsettir fjárfestar, bæði fagfjárfestasjóðir og einkafjárfestar, hafi þurft að mæta veðköllum frá fjármálastofnunum vegna framvirkra samninga sem þeir hafa gert með því að reiða annaðhvort fram frekari tryggingar eða selja frá sér bréfin.

Sumir benda hins vegar á að það boðuð sala ríkissjóðs á stórum hlut í Íslandsbanka, sem kann núna að frestast um sinn vegna óvissunnar á mörkuðum, hafi gert það að verkum að margir verðbréfasjóðir og fjársterk eignarhaldsfélög séu að undanförnu búnir að vera með augun á sölunni. Skuldsetning fjárfesta hafi á þessum tímapunkti því verið minni en ella og að sama skapi lausafjárstaðan betri, meðal annars til að mæta mögulegum veðköllum samhliða miklum verðlækkunum síðustu daga.

Horfa í vaxandi mæli til endurkaupa

Miklar og vaxandi útgreiðslur til hluthafa að undanförnu koma einkum til vegna kaupa fyrirtækja á eigin bréfum en slík endurkaup, sem hafa verulega í Kauphöllinni á síðustu árum, námu samtals 61 milljarði króna borið saman við aðeins 13 milljarða á árinu 2020. Frá 2015 nema endurkaup fyrirtækja í Kauphöllinni samanlagt yfir 170 milljörðum króna á meðan arðgreiðslurnar yfir sama tímabil eru samtals um 140 milljarðar.

Rétt eins og arðgreiðslur eru kaup á eigin bréfum ein leið fyrir stjórnendur skráðu félaganna til að koma fjármunum sem þeir álíta vera umfram eigið fé í rekstrinum til hluthafa. Slík endurkaup fela í sér að félögin kaupa eigin bréf og afskrá þau síðan af markaði. Með því lækkar hlutafé félagsins og því eru færri bréf sem eiga tilkall til hagnaðar þannig að virði hvers hlutabréfs ætti að hækka í hlutfalli við þau sem eru tekin af markaði.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.