Innherji

Launahæsti forstjórinn í Kauphöllinni lækkaði í launum um 15 milljónir í fyrra

Hörður Ægisson skrifar
Árni Oddur Þórðarson

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, fékk greiddar samtals 935 þúsund evrur, jafnvirði um 133 milljónir íslenskra króna á gengi dagsins í dag, í laun, hlunnindi og kaupaaukagreiðslur á árinu 2021. Það jafngildir mánaðarlaunum upp á tæplega 11,1 milljónir króna.

Þetta má lesa út úr ársreikningi Marels fyrir árið 2021 sem var birtur í síðustu viku en Árni Oddur hefur verið launahæsti forstjórinn í Kauphöllinni undanfarin ár.

Launa- og kaupaukagreiðslur Árna Odds lækkuðu hins vegar um 10 prósent í fyrra en til samanburðar fékk forstjórinn greiddar samanlagt 1.038 þúsund evrur, jafnvirði um 148 milljónir króna á núverandi gengi, í regluleg laun, hlunnindi og kaupaukagreiðslur á árinu 2020.

Hlutabréfaverð Marels, langsamlega stærsta fyrirtækið í Kauphöllinni og jafnframt skráð á markað í Amsterdam í Hollandi, hækkaði minnst allra skráðra félaga á liðnu ári, eða um 11 prósent, borið saman við 28 prósent á árinu 2020 og 66 prósent árið 2019.

Þessi þróun á gengi félagsins í fyrra endurspeglaðist meðal annars í lægri skammtímakaupauka til handa Árna Oddi en slíkar greiðslur námu 207 þúsund evrum á síðasta ári borið saman við 332 þúsund evrur á árinu 2020. Í krónum talið lækkuðu kaupaukagreiðslurnar því um liðlega 18 milljónir.

Regluleg laun og hlunnindi Árna Odds hækkuðu hins vegar um 3 prósent á milli ára og námu samtals 728 þúsund evrum á árinu 2021.

Til viðbótar veitti stjórn Marels honum kauprétti á liðnu ári sem samsvarar 363 þúsund hlutum í félaginu, að því er fram kemur í ársreikningnum. Til samanburðar fékk Árni Oddur kauprétti upp á 334 þúsund hluti á árinu 2020.

Tekjur Marels námu 1.360,8 milljónum evra á síðasta ári og jukust um liðlega 123 milljónir evra frá 2020. Hagnaður félagsins minnkaði hins vegar um sex milljónir evra og var samtals 96,2 milljónir evra á árinu 2021. Þá sló félagið met í pöntunum en þær námu samtals 1,5 milljarði evra og jukust um 22 prósent frá 2020.

Hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað nokkuð að undanförnu – frá áramótum nemur lækkunin um 13 prósentum – en markaðsvirði Marels stendur í dag í tæplega 600 milljörðum króna og hefur ekki verið lægra frá því í desember 2020. Hefur það lækkað um 150 milljarða króna frá því að gengi bréfa félagsins stóð hvað hæst í lok ágúst í fyrra.


Tengdar fréttir

Forstjóri Marel: Við fórum viljandi af stað á undan vextinum

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, boðar stórar yfirtökur í því skyni að ná metnaðarfullum markmiðum um tekjuvöxt sem þarf að vera töluvert meiri á næstu fimm árum en hann hefur að meðaltali verið á síðustu fimm. Hann segir að fjárfesting í sölu- og þjónustuneti í miðjum heimsfaraldri hafi skilað sér í því að tæknifyrirtækið sé í góðri stöðu miðað við keppinauta og býst við að „dulinn kostnaður“ vegna tafa og verðhækkana í aðfangakeðju, sem nemur um tveimur prósentum af tekjum Marel, muni ganga til baka á seinni hluta ársins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×