Erlent

Segja Rússland vera hryðjuverkaríki

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Riga í Lettlandi.
Frá Riga í Lettlandi. EPA/TOMS KALNINS

Þingmenn Lettlands samþykktu í morgun ályktun um að Rússland væri hryðjuverkaríki og aðgerðir Rússa í Úkraínu væru tilraunir til þjóðarmorðs á úkraínsku þjóðinni. Þingmennirnir kölluðu eftir því að önnur ríki lýsi því einnig yfir að Rússland sé hryðjuverkaríki.

Í frétt AFP fréttaveitunnar er haft eftir þingmönnum að árásir Rússa á óbreytta borgara í Úkraínu hafi pólitískan tilgang og því séu þær hryðjuverk.

Í ályktuninni segir að Rússar noti þjáningu og ógnanir til að reyna að draga móðinn úr úkraínsku þjóðinni og hernum og til að lama ríkisrekstur Úkraínu með því markmiði að hernema landið.

Samkvæmt frétt Ríkisútvarps Lettlands segir einnig í ályktuninni að Rússar hafi stutt og fjármagnað aðrar ríkisstjórnir sem fremji hryðjuverk og hryðjuverkasamtök um árabil. Það hafi Rússar gert beint og óbeit með stuðningi við ríkisstjórn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Rússar hafi einnig framið hryðjuverk eins og með Skripal-eitruninni og með því að skjóta niður malasísku farþegaþotuna MH-17.

Rihard Kols er formaður utanríkismálanefndar þingsins.

Þá segir í ályktuninni að innrás Rússa í Úkraínu hafi leitt til þess að tólf milljónir Úkraínumanna hafa þurft að flýja heimili sín og fimm milljónir hafi þurft að flýja land. Þar að auki hafi fjölmörg ódæði rússneskra hermanna gegn óbreyttum borgurum í Úkraínu litið dagsins ljós. Borgarar hafi meðal annars verið myrtir, þeir pyntaðir og þeim nauðgað.

Þingið kallaði eftir því að Evrópusambandið hætti að veita ferðamönnum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi vegabréfsáritanir og dragi almennt úr útgáfu vegabréfsáritana til fólks frá þessum löndum.

Þjóðþing Litháens samþykkti í maí sambærilega ályktun um að Rússland væri hryðjuverkaríki og Rússar reyndu að fremja þjóðarmorð í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Stjaksettu höfuð úkraínsks hermanns

Myndefni af afskræmdu líki úkraínsks hermanns sem fangaður var af Rússum hefur verið í dreifingu um helgina og vakið mikla reiði. Hermaðurinn virðist hafa verið afhöfðaður og höfði hans og höndum komið fyrir á skafti í borginni Popasna í Úkraínu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.