Innlent

Frétta­blaðið ætlar ekki að biðja rúss­neska sendi­ráðið af­sökunar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, segir ritstjórn ekki ætla að biðjast afsökunar á myndbirtingunni.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, segir ritstjórn ekki ætla að biðjast afsökunar á myndbirtingunni. Vísir/Vilhelm

Ritstjóri Fréttablaðsins segist ekki ætla að biðjast afsökunar á mynd sem birtist í blaðinu í morgun. Á myndinni má sjá einstakling traðka á rússneska fánanum en að sögn rússneska sendiráðsins á Íslandi er myndin móðgun fyrir Rússneska sambandsríkið.

Myndin sem um ræðir var hluti af grein sem birtist í Fréttablaðinu í morgun með fyrirsögninni „Enginn uppgjafarhugur í Úkraínumönnum“ en þar var rætt við blaðamanninn Val Gunnarsson sem nú er staddur í Kænugarði. Á myndinni sést einstaklingur traðka á rússneska fánanum en myndatextinn er „Úkraínumenn hafa fundið ný not fyrir rússneska fánann.“.

Myndin sem Rússar kvörtuðu yfir ásamt myndatextanum.Skjáskot/Fréttablaðið

Rússneska sendiráðið á Íslandi metur það sem svo að með því að birta myndina sé Fréttablaðið að sýna Rússlandi óvirðingu en í færslu á Facebook-síðu sendiráðsins krefjast Rússar þess að ritstjórn blaðsins biðjist afsökunar á myndbirtingunni.

Í samtali við fréttastofu segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, að ritstjórn ætli ekki að biðjast afsökunar á myndbirtingunni. Hann segir myndina vera fréttamynd, rétt eins og hver önnur mynd úr átökum milli þjóða.

„Það er ekkert heilagt í stríði þar sem börn, mæður, gamalmenni eru drepin og heilu samfélögin lögð í rúst. Þar er fáni nánast aukaatriði enda er víða traðkað á fánum um allan heim í mótmælaskyni,“ segir Sigmundur. „Ég held að Rússar ættu fyrst og fremst að hugsa um það að koma almennilega fram við aðrar þjóðir í kringum sig heldur enn að vera að væla út af mynd í Fréttablaðinu.“

Valur Gunnarsson, viðmælandi Fréttablaðsins í greininni, hefur tjáð sig um færsluna á Facebook-síðu sinni. Hann segist ekki búast við því að mega fara til Rússlands á næstunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×