Enski boltinn

Jón Daði skoraði er Bolton fór áfram í enska deildarbikarnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum í kvöld.
Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum í kvöld. Richard Martin-Roberts - CameraSport via Getty Images

Jón Daði Böðvarsson var á skotskónum er Bolton vann öruggan 5-1 sigur gegn D-deildarliði Salford City í fyrstu umferð enska deildarbikarsins í knattspyrnu.

Bolton leikur í C-deild ensku knattspyrnunnar og því var vitað að nokkur getumunur væri á liðunum. Þrátt fyrir það voru það gestirnir í Salford sem voru fyrri til að brjóta ísinn þegar liðið tók forystuna á 23. mínútu leiksins.

Heimamenn voru þó ekki lengi að svara fyrir sig og jöfnuðu metin átta mínútum síðar áður en Jón Daði kom liðinu yfir stuttu fyrir hálfleik.

Heimamenn í Bolton bættu svo tveimur mörkum við í síðari hálfleik áður en Jón Daði var tekinn af velli á 83. mínútu. Þremur mínútum síðar leit fimmta mark liðsins dagsins ljós og niðurstaðan því öruggur 5-1 sigur Bolton.

Jón Daði og félagar eru því komnir í aðra umferð enska deildarbikarsins, en þar bætast við þau 13 lið úr ensku úrvalsdeildinni sem ekki taka þátt í Evrópukeppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×