Enski boltinn

Til Chelsea fyrir metfé og véfréttin fagnar sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Marc Cucurella er orðinn leikmaður Chelsea og verður mögulega með liðinu gegn Everton á morgun.
Marc Cucurella er orðinn leikmaður Chelsea og verður mögulega með liðinu gegn Everton á morgun. Chelsea FC

Vinstri bakvörðurinn Marc Cucurella var í dag kynntur sem nýjasti leikmaður Chelsea en félagið er sagt greiða Brighton alls um 62 milljónir punda fyrir leikmanninn þegar allt er talið.

Á heimasíðu Brighton er staðfest að um metfé er að ræða í sögu félagsins og aldrei hefur hærra fé verið greitt fyrir vinstri bakvörð. 

Aðeins tveir dagar eru síðan að Brighton fullyrti að þvert gegn fréttum ýmissa fjölmiðla væri ekkert samkomulag í höfn við nokkurt félag varðandi sölu á Cucurella.

Þau tíðindi urðu til þess að ýmsir töldu félagaskiptavéfréttina Fabrizio Romano, sem hreinlega virðist sjá allt og heyra þegar kemur að félagaskiptum í knattspyrnuheiminum, hafa brugðist eða logið að fylgjendum sínum. Romano sagði þá að það ætti eftir að koma í ljós hver hefði logið og reyndist svo hafa rétt fyrir sér um að Cucurella færi til Chelsea.

Hann sagði svo frá því í dag að kaupverðið næmi 55 milljónum punda auk 7 milljóna viðbótargreiðslna, og er samningur Cucurella við nýja félagið til næstu sex ára.

Cucurella, sem er 24 ára Spánverji, átti stórgott fyrsta tímabil á Englandi á síðustu leiktíð. Hjá Chelsea eru þó fyrir afar góðir vinstri bakverðir, þeir Ben Chilwell og Marcos Alonso. Alonso er aftur á móti á förum til Barcelona ef að líkum lætur en samkeppnin verður væntanlega mikil á milli Cucurella og Chilwell sem glímdi mikið við meiðsli á síðustu leiktíð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.