Erlent

Spán­verjar rýmka reglur fyrir er­lent verka­fólk

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lagabreytingarnar munu rýmka fyrir erlendu verkafólki sem hefur búið á Spáni í tvö ár, stúdentum og auðvelda fyrirtækjum að ráða fólk að utan.
Lagabreytingarnar munu rýmka fyrir erlendu verkafólki sem hefur búið á Spáni í tvö ár, stúdentum og auðvelda fyrirtækjum að ráða fólk að utan. Getty/Niccolo Guasti

Spánverjar samþykktu á þriðjudag lagabreytingar sem rýmka reglugerðir fyrir erlent verkafólk án tilskilinna leyfa í von um að færa þúsundir verkafólks úr svartri atvinnu inn á opinberan vinnumarkað og koma reglu á atvinnugreinar sem glíma við manneklu. 

José Luis Escrivá, almannatrygginga- og búferlaflutningamálaráðherra, er forgöngumaður um lagabreytingarnar sem koma til með að auðvelda atvinnurekendum að ráða erlent verkafólk beint frá heimalöndum sínum og rýmkar vinnuskilyrði fyrir erlent fólk sem býr þegar á Spáni.

Talið er að um hálf milljón manna vinni í neðanjarðarhagkerfi Spánar.

Jose Luis Escriva, almannatrygginga- og búferlaflutningaráðherra, er forgöngumaður um lagabreytingarnar.EPA/Chema Moya

„Þessar ráðstafanir munu útvega okkur betri verkfæri til að takast á við áskoranir sem myndast við fólksflutninga,“ sagði Escrivá á blaðamannafundi eftir að lagabreytingarnar voru samþykktar á ríkisstjórnarfundi.

Escrivá hefur ekki gefið upp nákvæmar tölur um það hversu margt fólk mun hagnast á lagabreytingunni en talið er að hún gæti haft áhrif á tugi þúsunda verkafólks.

Verkafólk og stúdentar hagnist á breytingunni 

Erlent verkafólk sem hefur búið á Spáni í meira en tvö ár getur sótt um tímabundið landvistarleyfi með því að sækja um þjálfunarnámskeið fyrir störf í atvinnugreinum þar sem eftirspurn eftir starfsfólki er mikil. 

Þá munu alþjóðlegir stúdentar geta hafið störf á Spáni eftir að námi þeirra lýkur í stað þess að bíða í þrjú ár. Erlendir stúdentar munu einnig geta unnið allt að þrjátíu klukkutíma á viku á meðan þeir eru í námi.

Útlendingar sem hafa búið á Spáni í að minnsta kosti tvö ár og hafa unnið réttindalaust í meira en hálft ár geta einnig sótt um atvinnuleyfi eftir að lagabreytingin tekur gildi.

Escrivá hefur greint frá því að ráðuneyti hans muni uppfæra lista yfir það hvaða atvinnugeira skorti starfsfólk til að draga skýrari mynd af spænskum vinnumarkaði. Geirar á borð við ferðamannaiðnaðinn og landbúnað eru yfirleitt undirmannaðir á Spáni og fyrirtæki grípa því oft til þess ráðs að ráða farandverkamenn sem hafa ekki tilskilin atvinnuleyfi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.