Innlent

Kæra Sam­takanna '78: Um­mæli Helga séu róg­burður eða smánun og teljist því til hatur­s­orð­ræðu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Samtökin '78 kæra Helga Magnús vararíkissaksóknara vegna ummæla hans á samfélagsmiðlum um hinsegin hælisleitendur.
Samtökin '78 kæra Helga Magnús vararíkissaksóknara vegna ummæla hans á samfélagsmiðlum um hinsegin hælisleitendur. Vísir

Samtökin '78 hafa kært Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara til lögreglu vegna ummæla sem hann lét falla um hinsegin hælisleitendur á Facebook-síðu sinni í síðustu viku. Samtökin segja ummælin rógburð eða smánun og falli þau því undir lög um hatursorðræðu.

Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri samtakanna staðfestir þetta í samtali við fréttastofu. 

„Stjórn Samtakanna '78 hefur ákveðið að leggja fram kæru á hendur vararíkissaksóknara, Helga Magnúsar Gunnarssonar, vegna ummæla hans um hinsegin fólk sem leitar að alþjóðlegri vernd,“ segir í kærunni, sem fréttastofa hefur undir höndum. Hana má sjá í heild sinni neðst í fréttinni.

Ummælin lét Helgi falla á Facebook á fimmtudagskvöld í síðustu viku þegar hann deildi viðtali fréttastofu Vísis og Stöðvar 2 við lögmanninn Helga Þorsteinsson Silva, sem sagði frá því að stjórnvöld hafi sakað skjólstæðing hans um að ljúga til um kynhneigð sína og hafnað honum hæli. Héraðsdómur sneri ákvörðun Útlendingastofnunar við á þeim grundvelli að sannað taldist að maðurinn væri samkynhneigður. 

Ummæli Helga á Facebook.Facebook

Helgi Magnús skrifaði við deilinguna að „auðvitað ljúgi hælisleitendur.“ Þá spurði hann hvort einhver skortur væri á hommum á Íslandi. Helgi sagði jafnframt í samtali við fréttastofu í dag að hann hafi ekki verið að gera athugasemdir við málið sjálft heldur almennt. Þá þætti honum vænt um samkynhneigða og hefði aldrei haft neitt á móti þeim.

Ríkissaksóknari hefur ummæli Helga til skoðunar og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra sagði í samtali við fréttastofu fyrir helgi að ummælin kæmu illa við sig. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×