Enski boltinn

Stuðningsmenn Atletico mótmæla hugsanlegri komu Ronaldo

Atli Arason skrifar
Cristiano Ronaldo var banabiti Atletico Madrid oftar en einu sinni. Hér er hann í úrslitaleik með Real gegn Atletico í Meistaradeild Evrópu árið 2016. Leik sem Real vann í vítaspyrnukeppni.
Cristiano Ronaldo var banabiti Atletico Madrid oftar en einu sinni. Hér er hann í úrslitaleik með Real gegn Atletico í Meistaradeild Evrópu árið 2016. Leik sem Real vann í vítaspyrnukeppni. Getty Images

Cristiano Ronaldo er sagður vera á leið frá Manchester United og hefur verið orðaður við hin ýmsu lið víðs vegar um Evrópu í allt sumar. Nú síðast var hann orðaður við Atletico Madrid en stuðningsmenn Atletico tóku þó ekki vel í þann orðróm og blésu til mótmæla á samfélagsmiðlum.

Ronaldo eyddi níu árum með Real Madrid sem eru erkifjendur Atletico Madrid til margra ára. Stuðningsmenn þess síðarnefnda eru ekki búnir að gleyma framkomu Ronaldo gegn Atletico. Á löngum ferli sínum hefur hann skorað 25 mörk í 35 leikjum gegn Atletico og tvisvar unnið liðið í úrslitaleik Meistaradeild Evrópu með Real Madrid.

Ronaldo skoraði svo þrennu í Meistaradeildinni gegn Atleticto árið 2019 þegar hann lék með Juventus. Ronaldo stráði salt í sár stuðningsmanna Atletico með því að fagna einu markinu með því að gera grín af fögnuði knattspyrnustjóra liðsins, Diego Simeone, í leiknum á undan.

Stuðningsmenn Atletico hafa undanfarið verið að deila sínum skoðunum á Ronaldo undir myllumerkinu #ContraCR7 sem mætti þýða sem „andsnúnir CR7“

Einn stuðningsmaður skrifar að hann muni segja upp öllum sínum áskriftum hjá Atletico ef Ronaldo kemur á meðan annar skrifar að gildi þeirra þýði meira en mörkin sem Ronaldo gæti komið með. Aðrir setja hreinlega mynd af Ronaldo með bannmerki yfir.

Það gæti því reynst þrautinni þyngri fyrir Ronaldo að finna sér nýtt félagslið en stuðningsmenn Atletico bætast við í hóp liða í Evrópu sem hafa keppst um að mótmæla áhuga á leikmanninum. Leikmaðurinn var fyrst orðaður við Chelsea sem sagðist ekki hafa áhuga á Ronaldo. Síðar var röðin kominn af PSG sem neitaði einnig áhuga.  Bayern München hefur líka andmælt áhuga á Ronaldo á meðan leikmaðurinn hefur sjálfur neitað að endurkoma hans í Sporting Lisbon sé yfirvofandi. 


Tengdar fréttir

Ronaldo sagður vilja fara til Atlético

Cristiano Ronaldo er sagður skoða möguleikann á því að ganga í raðir Atlético Madrid. Hann eyddi níu leiktíðum hjá erkifjendum þeirra í Real Madrid.

Griezmann á að víkja fyrir Ronaldo

Atlético Madrid hefur að sögn Times áform um það að losa franska landsliðsframherjann Antoine Griezmann af launaskrá sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×