Fótbolti

Ronaldo hlýtur að vera hataður af stuðningsmönnum Atlético

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar í gær.
Cristiano Ronaldo fagnar í gær. Getty/ Etsuo Hara
Atlético Madrid datt í gær út úr Meistaradeildinni eftir 3-0 tap á útivelli á móti ítalska félaginu Juventus. Þetta í fimmta sinn á sex árum sem liðið dettur út á móti liðinu hans Cristiano Ronaldo.

Cristiano Ronaldo gerði meira en að spila leikinn í gær því hann skoraði öll þrjú mörk Juventus og sá því til þess að liðið vann upp 2-0 forystu Atlético frá því í fyrri leiknum.

Það var ótrúlegt að fylgjast með kappanum í leiknum en hann skoraði fyrst tvö öflug skallamörk og tryggði síðan sigurinn með því að skora af öryggi úr vítaspyrnu.

Spænski tölfræðingurinn Alexis Martín-Tamayo bendir á af hverju stuðningsmenn Atlético Madrid hljóta að hata Cristiano Ronaldo.





Spænsku blaðamennirnir fengu ekki mikið frá Cristiano Ronaldo í blaðamannaherberginu eftir fyrri leikinn á Wanda Metropolitano en Ronaldo lá þá smá við höggi eftir að hafa aðeins skorað eitt mark í fyrstu sex Meistaradeildarleikjum sínum með Juventus. Juventus skoraði líka ekki í Madrid og var því 2-0 undir í einvíginu.

Blaðamennirnir gátu hins vegar búist við því að fimmfaldur meistari myndi mæta til leiks af fullum krafti þegar allt var undir í seinni leiknum. Það varð líka raunin. Hann hefur nú skorað fleiri mörk í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar en í riðlakeppninni.

Eina skiptið á síðustu sex tímabilum þar sem Atlético datt ekki út á móti liði með Cristiano Ronaldo innanborðs var í fyrra þegar Atlético sat eftir í riðlakeppninni en Roma og Chelsea fóru áfram upp úr riðlinum.

Öll hin árin hafa örlög Atlético hins vegar ráðist um leið og félagið drógst á móti liði Cristiano Ronaldo. Hann fór ekki aðeins illa með liðið í Meistaradeildinni heldur raðaði hann einnig inn mörkum gegn þeim í spænsku deildinni.

Þetta var líka í annað skiptið á þremur árum sem þrenna Cristiano Ronaldo ræður úrslitum í einvíginu. Fyrir tveimur árum skoraði hann hana reyndar í fyrri leiknum.



Skipti sem Cristiano Ronaldo hefur endað Meistaradeildarævintýri Atlético:

Í úrslitaleiknum 2014

Real Madrid vann 4-1 sigur og skoraði Ronaldo eitt markanna

Í átta liða úrslitunum 2015

Real Madrid vann 1-0 samanlagt en Javier Hernández skoraði eina markið eftir stoðsendingu frá Ronaldo.

Í úrslitaleiknum 2016

Real Madrid vann 5-3 í vítakeppni og skoraði Ronaldo úr síðustu spyrnunni

Í undanúrslitum 2017

Real Madrid vann 4-2 samanlagt en Ronaldo skoraði þrennu í 3-0 sigri í fyrri leiknum í Madrid.

Í sextán liða úrslitum 2019

Juventus vann 3-2 samanlagt og skoraði Ronaldo þrennu í 3-0 sigri í seinni leiknum í Torínó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×