Íslenski boltinn

FH kallar tíu marka mann heim

Valur Páll Eiríksson skrifar
Úlfur Ágúst Björnsson hefur verið kallaður heim til FH frá Njarðvík.
Úlfur Ágúst Björnsson hefur verið kallaður heim til FH frá Njarðvík. Njarðvík

FH hefur fengið framherjann Úlf Ágúst Björnsson til baka úr láni frá Njarðvík, hvar hann lék fyrri hluta sumars. Úlfur er næstmarkahæsti maður 2. deildar.

Úlfur hefur verið fastamaður í framlínu liðs Njarðvíkur sem hefur farið hamförum í 2. deildinni í sumar. Njarðvík er sem stendur á toppi deildarinnar með 37 stig af 39 mögulegum eftir 13 leiki.

Úlfur hefur skorað tíu mörk í leikjunum 13 og er næstmarkahæstur í deildinni, á eftir öðrum Njarðvíkingi, Oumar Diouck sem hefur skorað 13 mörk.

FH-ingar hafa átt í töluverðum vandræðum í sumar en Eiður Smári Guðjohnsen leitar enn síns fyrsta sigurs sem þjálfari liðsins eftir að hafa tekið við af Ólafi Jóhannessyni sem var nýlega sagt upp störfum.

FH situr í 9. sæti Bestu deildar karla með tíu stig eftir 13 leiki og hefur aðeins unnið tvo deildarleiki í sumar.

Liðið freistar þess að vinna sinn fyrsta sigur undir nýjum þjálfara í kvöld þegar topplið Breiðabliks heimsækir Kaplakrika. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×