Erlent

Stjórnmálamenn og almennir borgarar handsamaðir og pyntaðir

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Að minnsta kosti 23 létust, þar af þrjú börn, í árás Rússa á Vinnytsia í gær.
Að minnsta kosti 23 létust, þar af þrjú börn, í árás Rússa á Vinnytsia í gær. epa/Roman Pilipey

Hundruð Úkraínumanna er haldið föngum á hernumdum svæðum landsins, að sögn Sameinuðu þjóðanna. Bæði er um að ræða stjórnmálamenn og almenna borgara. Einn pólitíkus sagði í samtali við BBC að hann hefði verið handsamaður af rússneska hernum og beittur vatnspyntingum.

Oleh Pylypenko, kjörinn leiðtogi Shevchenkivska í suðurhluta Úkraínu, segist hafa verið fangaður nærri Kherson 10. mars síðastliðinn, þegar hann vann að því að koma neyðaraðstoð til íbúa. Hann segist telja að hann hafi verið eftirlýstur af innrásarsveitum á svæðinu og þær hafi setið fyrir sér.

Pylypenko var fluttur á flugvöll, þar sem hann segist hafa verið pyntaður í þrjá daga.

„Þeir snertu ekki ökumanninn minn. Þeir yfirheyrðu bara mig. Þeir notuðu líkamlegt ofbeldi, rafstraum og helltu köldu vatni yfir mig þegar það var frost úti. Ég fékk kalsár á tærnar og skemmdir á rifbeinin og innri líffæri,“ segir Pylypenko.

Hann segir Rússana einnig hafa lamið sig með gúmmíkylfu og sparkað í sig þar til það leið yfir hann. Hann segist ekki hefðu komist lífs af nema fyrir bílstjórann sinn, sem aðstoðaði hann allan tímann.

Pylypenko segist sína hafa orðið bitbein milli ólíkra sveita Rússa; hluti þeirra hefðu viljað taka hann af lífi fyrir að koma upp um staðsetningu þeirra en herlögreglan hefði viljað aðstoð hans við að skipuleggja fangaskipti. Herlögreglan hafði vinningin og Pylypenko var að lokum sleppt.

Sameinuðu þjóðirnar segja að minnsta kosti 65 stjórnamálamenn í Úkraínu hafa verið handtekna af Rússum frá því að innrásin hófst. Þá hafi almennir borgarar einnig sætt pyntingum og verið látnir hverfa.

Umfjöllun BBC.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×