Erlent

For­seti Srí Lanka hefur flúið land

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gotabaya Rajapaksa hefur flúið Srí Lanka.
Gotabaya Rajapaksa hefur flúið Srí Lanka. EPA/Justin Lane

Gotabaya Rajapaksa, forseti Srí Lanka, hefur náð að flýja land. Fyrr í dag hafði honum mistekist að flýja er flugvallarstarfsmenn komu í veg fyrir að hann gæti notað sérútgang á flugvellinum í Colombo.

Rajapaksa var flogið ásamt eiginkonu sinni úr landi í dag og til Maldíveyja í herflugvél. Forsetinn vildi komast til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum fyrr í dag en tókst það ekki þar sem flugvallarstarfsmenn neituðu að hleypa honum að sérútgangi á flugvellinum.

Ástandið í Srí Lanka fer versnandi með hverjum deginum en allt stefnir í verstu kreppu landsins frá upphafi þar sem Rajapaksa er talinn hafa verið ansi spilltur og farið frjálst með fjármál ríkisins.

Þá situr forsetinn einnig undir ásökunum um stríðsglæpi sem tengjast mannshvarfi og þætti hans í borgarastríðinu í Srí Lanka árið 2009, er hann gegndi embætti varnarmálaráðherra. Um áratugaskeið hefur verið komið í veg fyrir að þessar ásakanir komist til kasta dómstóla.

Hann hefur lofað að segja af sér á næstunni en hefur enn ekki gefið út hvenær hann ætlar að gera það. Ætla má að það gerist von bráðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×