Erlent

Eignaðist tví­bura með stjórnanda hjá fyrir­tæki í sinni eigu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Elon Musk hefur nú eignast níu börn yfir ævina.
Elon Musk hefur nú eignast níu börn yfir ævina. Vísir/EPA

Elon Musk, eigandi Tesla og SpaceX, eignaðist tvíbura á síðasta ári með Shivon Zilis, stjórnanda hjá Neuralink, en fyrirtækið er í eigu Musk.

Business Insider birti í gær gögn úr dómsal sem sýna nafnabreytingu á tvíburunum svo nöfn þeirra innihalda bæði eiginnafn Musk og Zilis. Musk skrifar undir gögnin sem faðir barnanna. Tvíburarnir fæddust í nóvember á síðasta ári og eru því rúmlega átta mánaða gamlir.

Neuralink var stofnað af Musk árið 2016 og er hann eigandi og forstjóri þess. Fjöldi taugavísindamanna vinnur hjá fyrirtækinu sem vinnur að því að búa til örflögur sem hægt verður að setja í heila fólks.

Musk hefur nú í heildina eignast tíu börn. Hann eignaðist Nevada með fyrrverandi eiginkonu sinni, Justine Wilson, árið 2002 en hann lést þegar hann var einungis tíu vikna gamall. Þau eignuðust síðan tvíbura árið 2004, Griffin og Xaiver. Einungis tveimur árum seinna eignuðust þau hjónin þríbura, þau Kai, Saxon og Damian.

Árið 2020 eignaðist Musk X Æ A-12 með söngkonunni Grimes og í desember á síðasta ári eignuðust þau Exa Dark Sideræl Musk með aðstoð staðgöngumóður.

Þá hafa nýju tvíburarnir bæst við og börnin því orðin tíu í heildina. Sjálfur á Musk einungis tvö systkini, þau Kimbal og Tosca.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×