Innlent

Þotuflugið virðist lítið hafa mildað martröð flugfarþega

Kristján Már Unnarsson skrifar
Boeing 757 þota Icelandair lendir á Reykjavíkurflugvelli síðdegis. Hún var að koma frá Keflavík úr millilandaflugi til að reyna að bjarga málum í innanlandsfluginu.
Boeing 757 þota Icelandair lendir á Reykjavíkurflugvelli síðdegis. Hún var að koma frá Keflavík úr millilandaflugi til að reyna að bjarga málum í innanlandsfluginu. Egill Aðalsteinsson

Stór farþegaþota af gerðinni Boeing 757 lenti síðdegis á Reykjavíkurflugvelli er hún var fengin til að reyna að bjarga málum í innanlandsflugi Icelandair eftir að tvær vélar úr innanlandsflota félagsins biluðu. Innanlandsflug félagsins gekk engu að síður meira og minna úr skorðum í dag.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá Boeing-þotuna lenda í Reykjavík. Koma þotunnar virðist þó lítið hafa mildað martröð flugfarþega því ekki stóð heldur steinn yfir steini í þeirri flugáætlun sem henni hafði verið ætlað að fylgja.

Þotan flaug fyrst til Akureyrar og hafði brottför verið áætluð klukkan 16.30. Reyndin varð seinkun um hálfa aðra klukkustund og fór hún ekki í loftið úr höfuðborginni fyrr en um klukkan 18. Samsvarandi seinkun varð svo á brottför frá Akureyri í kvöld.

Þotan að leggja upp að flugstöðinni í Reykjavík síðdegis.Egill Aðalsteinsson

Brottför þotunnar til Egilsstaða, sem tilkynnt hafði verið klukkan 19.30, seinkaði sömuleiðis og hélt hún ekki í loftið úr Reykjavík fyrr en um klukkan 21.15. Lenti þotan á Egilsstöðum um klukkan 22. Brottför frá Egilsstöðum, sem auglýst hafði verið klukkan 21.15, varð mun seinna og fór þotan í loftið klukkan 22.40. Búast má við lendingu hennar á Reykjavíkurflugvelli um klukkan 23.20.

Þegar upplýsingasíður Isavia um komur og brottfarir Icelandair í innanlandsfluginu eru skoðaðar sést að það voru varla nema þrjú flug á réttum tíma í dag. Verulegar seinkanir urðu á öðrum flugferðum eða þeim var hreinlega aflýst. Þannig var síðasta flug dagsins frá Ísafirði í kvöld meira en þremur klukkustundum á eftir áætlun.

Hér má sjá þotuna lenda í Reykjavík síðdegis:


Tengdar fréttir

Kvörtunum í tengslum við flug­ferðir rignir inn

Kvörtunum vegna seinkana og niðurfellinga á flugferðum hefur stórfjölgað að sögn formanns Neytendasamtakanna en mikil mannekla er á flugvöllum víða um heim. Hann telur flugfélög þurfa að standa sig betur í að upplýsa farþega um réttindi sín.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.