Erlent

Ghisla­ine Maxwell dæmd í tuttugu ára fangelsi

Kjartan Kjartansson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Teikning af Ghislaine Maxwell í réttarsal í nóvember.
Teikning af Ghislaine Maxwell í réttarsal í nóvember. AP/Elizabeth Williams

Ghislaine Maxwell var rétt í þessu dæmd til tuttugu ára fangelsisvistar fyrir að hafa aðstoðað þáverandi kærasta sinn, Jeffrey Epstein, við að finna og tæla unglingsstúlkur. Fórnarlömb Epstein og Maxwell voru meðal þeirra sem báru vitni fyrir dómi í dag. 

Maxwell var ákærð og sakfelld fyrir aðild að brotum Jeffreys Epstein á ungum stúlkum á árunum 1994 til 2004. Hún var sökuð um að hafa fundið og tælt stúlkurnar til Epstein og jafnvel um að taka þátt í kynferðislegri misnotkun á þeim. 

Saksóknarar fóru fram á að minnsta kosti þrjátíu ára fangelsisdóm yfir Maxwell sem er sextug. Hún hefur dúsað í fangelsi frá því að hún var handtekin í júlí 2020. Þá hefur hún verið á sjálfsvígsvakt í fangelsinu frá því á föstudaginn.

Samkvæmt fangelsisyfirvöldum hefur hún lagt fram meira en hundrað kvartanir vegna skilyrða í fangelsinu. Þar á meðal hefur hún kvartað yfir óhóflegum líkamsleitum og ágengu eftirliti fangavarða meðan hún er í sturtu.

Jeffrey Epstein svipti sig lífi í fangelsi í New York í ágúst árið 2019. Hann beið þá réttarhalda vegna ákæru um mansal. Konur sem sökuðu Epstein um kynferðisofbeldi báru vitni um að Maxwell hefði leikið lykilhlutverk í brotunum. Verjendur hennar héldu því aftur á móti fram að hún væri nú gerð að blóraböggli fyrir glæpi Epstein.

Fórnarlömb Epstein og Maxwell báru vitni fyrir dómi í dag, þar á meðal Annie Farmer. Hún sagðist hafa upplifað mikla skömm eftir samskipti sín við parið. 

„Ekki er hægt að telja fjölda fólksins sem hefur orðið fyrir skaða,“ sagði Farmer.

Sarah Ransome, eitt fórnarlamba þeirra, lýsti því fyrir dómi þegar hún reyndi að flýja eyjuna sem unglingsstúlkurnar voru fluttar á af Epstein og Maxwell. 

„Þú gast komið inn í dýflissuhelvíti Epstein og Maxwell en þú gast ekki farið út,“ sagði Ransome. Hún vildi meina að eina leiðin burt væri að hoppa ofan í sjóinn sem var fullur af hákörlum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Maxwell sögð á sjálfsvígsvakt í fangelsi

Lögmaður Ghislaine Maxwell, sem var sakfelld fyrir aðild að glæpum Jeffreys Epstein gegn konum, segir að hún sé sjálfsvígsvakt í fangelsinu í Brooklyn þar sem henni er haldið. Til stendur að ákvarða refsingu hennar á þriðjudag en lögmaðurinn segir að það kunni að frestast.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.