Erlent

„Þetta er 1937 augnablikið okkar,“ segir yfirmaður breska hersins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Johnson og Sanders telja mikilvægt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari átök.
Johnson og Sanders telja mikilvægt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekari átök.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir leiðtoga G7-ríkjanna hafa verið sammála um að veita Úkraínumönnum þann stuðning sem þeir þurfa til að snúa stríðinu sér í hag. Þetta sé það sem Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hafi óskað eftir.

Johnson var spurður að því í viðtali við Sky News hvort Bretar væru að undirbúa sig fyrir stríð við Rússa og sagðist þá ekki telja að það myndi koma átaka. Leiðtogarnir ynnu ötullega að því að koma í veg fyrir að stríðið breiddist út.

„Pútín og Kremlin munu reyna að útvíkka átökin og segja að þetta sé á milli Nató og Rússlands, sem þetta er ekki,“ sagði Johnson. „Þetta snýst um innrás inn í sjálfstætt, fullvalda ríki. Þetta snýst um að vestrið og allir bandamenn Úkraínu munu veita þeim þann stuðning sem þeir þurfa til að geta varið sig.“

Patrick Sanders, æðsti yfirmaður breska hersins, sagði fyrr í dag að Bretar og bandamenn þeirra stæðu frammi fyrir „1937 augnabliki“ og að þau þyrftu að gera allt sem þau gætu til að koma í veg fyrir aðra heimstyrjöld.

Sanders sagði mikilvægt að bandamenn enduðu ekki í þeirri stöðu að þurfa að spyrja sig: „Hefðum við átt að gera meira?“

Hann sagði þenslustefnu Vladimir Pútín Rússlandsforseta stærstu ógnina gegn fullveldi, lýðræði og frelsi sem hann hefði upplifað. Verkefni hans væri að undirbúa breska herinn gagnvart nýrri ógn en herinn væri ekki í viðbragðsstöðu til að stuðla að stríði heldur til að forða stríði.

Sanders sagði umfang átakanna í Úkraínu fordæmalaust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×