Erlent

Versta hitabylgja í Japan í eina og hálfa öld

Kjartan Kjartansson skrifar
Japönsk yfirvöld hafa sagt fólki að ganga ekki með sóttvarnagrímur utandyra til að draga úr líkum á hitaslagi. Ekki hafa allir orðið við þeim tilmælum.
Japönsk yfirvöld hafa sagt fólki að ganga ekki með sóttvarnagrímur utandyra til að draga úr líkum á hitaslagi. Ekki hafa allir orðið við þeim tilmælum. Vísir/EPA

Hitabylgja sem gengur nú yfir Japan er sú versta í júnímánuði í tæplega 150 ár. Mikið álag er á raforkukerfi landsins vegna hitans og vara yfirvöld við því að ekki sé útilokað að grípa þurfi til skammtana.

Hitinn í Tókýó náði 35,1°C fyrir klukkan 13:00 að staðartíma í dag. Þetta er fjórði dagurinn í röð sem hitinn fer yfir 35 gráður. Það gerðist síðast í júnímánuði árið 1875. Viðvörun var gefin út vegna hættu á hitaslagi víða um Japan í dag og í Tókýó voru 76 fluttir á sjúkrahús.

Ekkert lát virðist ætla að verða á hitanum í bráð. Japanska veðurstofan spáir því að hitinn nái 36 gráðum í höfuðborginni á fimmtudag og 35 gráðum á föstudag.

Yfirvöld hafa biðlað til almennings að draga úr rafmagnsnotkun til að forðast rafmagnsleysi. Sparnaðurinn ætti þó að vera innan skynsamlegra marka. Koichi Hagiuda, viðskipta- og iðnaðarráðherra, segir dæmi um að eldra fólk hafi slökkt á loftkælingu eftir að almenningur var beðinn um að spara við sig.

„Geriði það, það er heitt, ekki hika við að kæla ykkur,“ sagði ráðherrann.

Erfiðlega hefur einnig gengið að sannfæra allan almenning um að skilja sóttvarnagrímur eftir heima til að draga úr líkum á að hitinn beri fólk ofurliði.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.