Enski boltinn

Chelsea gæti náð í tvo leikmenn Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling og Nathan Ake hafa verið samherjar hjá Manchester City og verða það mögulega áfram hjá Chelsea.
Raheem Sterling og Nathan Ake hafa verið samherjar hjá Manchester City og verða það mögulega áfram hjá Chelsea. EPA-EFE/Andrew Yates

Raheem Sterling er ekki eini leikmaður Manchester City sem gæti verið á leiðinni til Chelsea ef marka má enska fjölmiðla.

Góðar líkur eru sagðar á því að Chelsea klári kaupin á Raheem Sterling á næstu dögum. Nýi eigandinn Todd Boehly hefur verið í sambandi við Manchester City en nú lítur út fyrir það að hann vilji pakkadíl.

Chelsea hefur nefnilega einnig áhuga á miðverðinum Nathan Ake samkvæmt upplýsingum Telegraph.

Sterling hefur spilað með City frá því að liðið keypti hann frá Liverpool árið 2015 og hefur skorað 131 mark í 339 leikjum með liðinu.

Hann var með 13 mörk í 30 deildarleikjum á nýloknu tímabili en var á bekknum í tveimur stórleikjum undir lok tímabilsins, fyrst í undanúrslitaleiknum á móti Real Madrid í Meistaradeildinni og svo í lokaleik tímabilsins á móti Aston Villa þar sem City þurfti sigur.

Sterling sló ungur í gegn og er enn bara 27 ára gamall. Hann ætti því að eiga sín bestu ár eftir í boltanum og því eru forráðamenn Chelsea spenntir fyrir.

Samkeppnin um sæti í framlínu City hefur líka aukist með kaupum félagsins á Erling Haaland frá Borussia Dortmund og Julian Alvarez frá River Plate.

Manchester City gæti síðan einnig selt brasilíska framherjann Gabriel Jesus til Arsenal.

Englandsmeistararnir mæta því væntanlega með nokkuð breyttan hóp í titilvörnina á komandi tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×